Áhugi japanska sendiherrans kom á óvart

Unnur Sara Eldjárn.
Unnur Sara Eldjárn. Ljósmynd/Aðsend

Árið 2021 var gott hjá tónlistarkonunni Unni Söru Eldjárn en í byrjun desember hlaut hún ný­sköp­un­ar­verðlaun dags ís­lenskr­ar tungu. Skrýtnasta atvikið á árinu var hins vegar þegar hún uppgötvaði sendiherra Japans á Íslandi tísti um hana og tónlistina hennar. 

„Fyrstu dagarnir mínir í Montpellier í ágúst þegar ég fann það strax á mér hvað mér ætti eftir að líða vel í nýja hverfinu mínu,“ segir Unnur Sara um hápunkt ársins en hún býr í Frakklandi. 

Lágpunktur ársins?

„Þegar ég mátti ekki fara í sund.“

Skrýtnasta augnablikið árið 2021?

„Það var sama kvöld og ég hélt útgáfutónleikana fyrir nýjustu plötuna mína. Ég hafði loksins tíma til að kíkja á messenger seint um kvöldið og sá þar einhvern slatta af einkaskilaboðum þar sem fólk var að láta mig vita að japanski sendiherrann á Íslandi hefði verið gestur á tónleikunum og tíst um mig á Twitter! Ég skildi þetta ekki alveg fyrst, þar sem ég er sjálf ekkert á Twitter, og fyrir þetta augnablik hafði ég ekki hugmynd um að það tíðkaðist að fylgjast með því sem sendiherrar á Íslandi deila þar.“

Suzuki Ryot­aro Sendiherra Japans á Íslandi er vinsæll á Twitter …
Suzuki Ryot­aro Sendiherra Japans á Íslandi er vinsæll á Twitter og tísti um Unni Söru. Samsett mynd

Hvernig ætlar þú að fagna nýju ári?

„Hjá mér er þetta yfirleitt frekar hefðbundið matarboð með stórfjölskyldunni, það verður engin undantekning á því í ár. Fyrir tveimur árum reyndi ég að gúgla einhverja áramótaleiki til að prófa eitthvað nýtt en fann ekkert spennandi svo ég bjó því til minn eigin: Allir eiga að skrifa niður á nokkra miða eitthvað sem þeir halda að eigi eftir að gerast á nýju ári, helst eitthvað skondið um aðila innan fjölskyldunnar. Svo er öllum miðunum ruglað saman, lesnir upp einn og einn og hlegið yfir ruglinu sem okkur dettur í hug. Hluti af fjörinu er líka að giska á hver skrifaði hvaða miða. Ég mæli með þessum leik, þótt ég segi sjálf frá!“

Hvernig leggst nýtt ár í þig?

„Mjög vel, fyrstu sex vikurnar verð ég á Íslandi og held fyrirlestra um markaðssetningu, tek á móti tónlistarfólki í einkatíma og held tónleika á Austurlandi.“

Áramótaheit fyrir 2022?

„Ég setti mér áramótaheit á hverju ári þegar ég var yngri af því ég ætlaði mér alltaf svo stóra hluti. En nú er ég alveg hætt því. Það er samt alltaf sama meginþema í gangi hjá mér. Halda áfram að vera jafn hugrökk og ég er búin að vera á þessu ári. Vera samkvæm sjálfri mér. Sýna mér sjálfsmildi og reyna að verja minni tíma og orku í eitthvað sem skiptir í raun engu máli í stóra samhenginu.“

Ætlar þú að vera duglegri að gera eitthvað 2022 en þú varst 2021?

„Það lítur út fyrir að ég muni syngja töluvert meira fyrir áhorfendur, bæði á Íslandi og í Frakklandi. Svo stefni ég líka á að láta drauminn minn rætast um að vera áhorfandi á stórum tónlistarhátíðum í Frakklandi. Hvernig sem þetta verður svo á endanum þá er að minnsta kosti eitt á hreinu, mér á ekki eftir að leiðast!“

Besta bók ársins?

„Uncharted – Journey through Uncertainty to Infinite Possibility eftir Colette Baron Reid er bók sem ég las á þessu ári og hafði mikil áhrif á mig.“

Réttur ársins í eldhúsinu þínu?

„Halloumi-ostur.“

Besta kvikmynd ársins?

„Netflix-heimildarmyndin „Angèle“ sem fjallar um eina vinsælustu tónlistarkonuna í Frakklandi og Belgíu. Hún er mjög einlæg og góð í að segja söguna sína sem er ansi mögnuð, svo margt sem hægt er að tengja við ef maður hefur starfað í þessum bransa, hlutir sem mætti tala miklu meira um. Á sama tíma vekur hún mann til umhugsunar um hvað heimurinn gerir ennþá óraunhæfar kröfur til vinsælustu tónlistarmannanna.“

Bestu þættir ársins?

„Valeria. Þeir hafa verið kallaðir spænskir Sex and the City-þættir, en þeir fjalla um ungan spænskan rithöfund ásamt vinkvennahópi hennar og líf þeirra í Madrid. Mjög vel skrifaðir þættir. Mér finnst frábært hvað það eru komnar margar góður seríur á Netflix sem innihalda sterkar frásagnir af konum.“

Besta lag ársins?

„Fuckboys með Kristínu Sesselju.“



mbl.is