Það virðist hafa komið landsmönnum mjög svo á óvart að ein ástsælasta tónlistarkona landsins, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, ætti von á sínu þriðja barni. Fréttin var sú mest lesna á barnavef mbl.is á árinu.
Barnavefurinn greindi frá því í nóvember síðastliðnum að hún ætti von á barni með nýjum kærasta sínum, Ólafi Friðriki Ólafssyni, en sama dag höfðu fréttir borist af því að þau væru tekin saman aftur á ný.
Fréttir af nýjum börnum þóttu hvað fréttnæmastar á barnavefnum þetta árið, en það sem þótti næstfréttnæmast var að María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, og sambýlismaður hennar Emil Þór Vigfússon ættu von á öðru barni sínu, en fyrir eiga þau soninn Elmar Aríus sem varð tveggja ára í febrúar. Emil á tvo syni úr fyrra hjónabandi. María og Emil hafa verið saman frá árinu 2018.
Í apríl greindi barnavefurinn frá því að söngkonan Þórdís Imsland og tannlæknirinn Sigurjón Örn Böðvarsson hefðu ákveðið að eignast barn saman sem vinir. Mikið hefur farið fyrir hinum nýbökuðu foreldrum í fjölmiðlum á árinu, en þau eignuðust lítinn son fyrr á þessu ári og búa saman með drenginn litla sem vex og dafnar.
Barnavefurinn ræddi við uppistandarann Jakob Birgisson í apríl um föðurhlutverkið. Jakob eignaðist sitt fyrsta barn, dótturina Herdísi, með sambýliskonu sinni Sólveigu Einarsdóttur. Jakob er aðeins 22 ára gamall og segir það hafa verið með ráðum gert að hefja barneignir snemma svo hann gæti verið laus allra mála um fimmtugt.
Nafngiftir barna vekja alltaf mikla athygli. Það þótti því nokkuð fréttnæmt þegar fótboltamaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson og náttúrukokkurinn Alexandra Helga Ívarsdóttir gáfu dóttur sinni sjaldgæft nafn. Litla stúlkan fékk nafnið Melrós Mía og var sú fimmta á Íslandi til að fá nafnið Melrós.