Frestuðu brottför skipanna vegna veðurs

Slæmt veður varð til þess að loðnuskip Síldarvinnslunnar lögðu ekki …
Slæmt veður varð til þess að loðnuskip Síldarvinnslunnar lögðu ekki frá bryggju í gær eins og lagt var upp með. Þau halda til veiða í kvöld eða um miðnætti. Ljósmynd/Síldarvinnslan/Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK og loðnuskipin létu ekki frá bryggju í gær eins og lagt var upp með vegna veðurfars. Var brottför skipanna frestað um sólarhring og halda þau til veiða í kvöld eða um miðnætti, að því er fram kemur í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

Þar segir að ísfisktogarinn Gullver NS sé nú á Seyðisfirði og að unnið sé að gírupptekt í skipinu. Gert er ráð fyrir að skipið haldi til veiða í vikulok.

Á miðnætti nýársdags lét Bergey VE frá bryggju í Vestmannaeyjum og er nú á veiðum á miðunum fyrir sunnan land, nánar til tekið suður fyrir Sólheimasand.

Á gamlársdag komu grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak til hafnar eftir að hafa verið á loðnuveiðum norðaustur af landinu. Polar Amaroq landaði 1.200 tonnum í fiskmjölsverksmiðjuna á Seyðisfirði í gær og Polar Ammasak mun landa þar 2.000 tonnum í dag. Í færslunni er haft eftir Eggerti Ólafi Einarssyni, verksmiðjustjóra á Seyðisfirði, að vinnsla gangi afar vel.

mbl.is