Grænlenska loðnuveiðiskipið Tasilaq kom til hafnar á Þórshöfn að kvöldi nýársdags með 400 tonn af loðnu. Bræla er á miðunum og ekkert veiðiveður svo skipið heldur ekki á veiðar fyrr en eftir einn eða tvo daga þegar veður skánar en það var á veiðum norðaustur af landinu.
Allur aflinn fer í bræðslu en ekki liggur á að landa fyrr en í dag, mánudag, þar sem Tasilaq bíður af sér veðrið í höfn.