Hafrannsóknastofnun leitar nú að netabátum fyrir stofnmælingar á hrygningarþorski eða svokallað netarall og hefur Ríkiskaup fyrir hönd stofnunarinnar óskað eftir boðum um leigu báta, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar.
Þar segir að verkefnið hafi farið fram ár hvert frá 1996 og að lögð séu net á um 300 stöðvum. Leiðangrar fara yfirleitt fram í apríl og er reynt að hefja leiðangur sem næst fyrsta dag þess mánaðar.
„Markmið rannsóknanna er að safna upplýsingum um kynþroska, aldur, lengd og þyngd þorsks á helstu hrygningarsvæðum. Einnig að meta árlega magn kynþroska þorsks sem fæst í þorskanet á hrygningarstöðvum og breytingar í gengd hrygningarþorsks á mismunandi svæðum,“ segir í tilkynningunni.
Skilafrestur tilboða er til hádegis þann 27. janúar.