Heldur döpur veiði hjá loðnuskipunum

Beitir NK-123 er eina skipið sem tókst að hefja veiðar …
Beitir NK-123 er eina skipið sem tókst að hefja veiðar aðfararnótt þriðjudags. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Aðfar­arnótt þriðju­dags héldu loðnu­skip Síld­ar­vinnsl­unn­ar til veiða, en aðeins Beit­ir NK hóf veiðar um nótt­ina, að því er fram kem­ur í færslu á vef út­gerðar­inn­ar.

„Líkt og fyr­ir jól­in er næt­ur­veiðin held­ur döp­ur. Öll skip­in á miðunum köstuðu í gær­morg­un og var veiðin yf­ir­leitt svipuð og hún var fyr­ir jól. Afli dags­ins var gjarn­an á bil­inu 300-500 tonn. Eitt skip­anna fékk þó 750 tonn nokkru norðar en hin skip­in voru,“ seg­ir í færsl­unni.

Þá var veðurð að ganga niður norðaust­ur af land­inu í fyrrinótt og gær­morg­un er skip­in héldu á miðin, en nú er þar skíta­bræla og voru skip­in kölluð inn vegna veðurs­ins til að landa því sem búið var að ná. Heild­arafl­inn nam 1.200 tonn­um og var hon­um landað á Seyðis­firði.

„Von­ast er til að veðrið gangi niður í kvöld og það verði veiðiveður á morg­un.“

mbl.is