Hótelerfinginn Paris Hilton gekk í hjónaband hinn 11. nóvember með áhættufjárfestinum Carter Reum. Fljótlega eftir það lögðu þau af stað í brúðkaupsferð og hafa núna verið í sjö vikur í ferðinni.
Þau njóta þess að sleikja sólina á Maldíveyjum. Nýbökuðu hjónin eiga auðvitað talsvert meira af peningum en flest annað fólk en svo kemur það sér vel að vera hótelerfingi. Á Maldíveyjum hafa þau meðal annars gist á hótelinu Conrad Maldives að því er fram kemur á vef Daily Mail. Hótelið er auðvitað hluti af Hilton-hótelkeðjunni og því líklega hæg heimatökin að fá gistingu á góðu verði.
Hilton greindi nýlega frá því að þau hefðu lengt ferðina. Hún sagði að þau hefðu átt það skilið eftir að hafa unnið mikið. Ferðin hófst á Bora Bora en hjónin hafa einnig farið til Angvilla, Frönsku-Pólýnesíu og Bresku Jómfrúaeyja.