Farþegi sem var um borð í flugvél sem fór í loftið frá alþjóðaflugvellinum í Míamí-borg í Flórída í Bandaríkjunum á dögunum upplifði ansi furðulega flugferð ef marka má myndskeið sem hann birti á samskiptamiðlinum TikTok.
Andrea Gallegos átti svolítið bágt með sig þegar hún áttaði sig á því að hún sat umkringd konum sem höfðu nýlega gengist undir rúmmálsaukandi aðgerðir á rassi (e. brazilian buttlift). Konurnar ollu ringulreið á sætaskipan í vélinni því þær gátu ekki með nokkru móti tyllt sér í sætin vegna aums afturenda og einnig til að forðast þrýsting á svæðið sem átt hafði verið við. Flugferðin tók rúmar þrjár klukkustundir og krupu þær hnjám í sætunum alla leiðina, með rassinn út í loftið.
„Það þurfti að láta þær setjast fyrir flugtak og lendingu svo þær gætu smellt á sig öryggisbeltinu en flugfreyjurnar reyndu að koma til móts við þær og létu þær sitja svona þegar slökkt var á sætisbeltaljósinu,“ sagði Gallegos, fréttamiðillinn Daily Star greindi frá.
Gallegos sagði að konurnar hefðu ekki þekkst og þær hefðu allar verið að ferðast á eigin vegum. Það þótti henni enn vandræðalegra.
„Munið konur, að ef þið eruð að fara í brasilíska rassalyftingu, ekki gleyma fluginu heim. Pakkið einhverju þægilegu fyrir hnén,“ sagði hin hugulsama Gallegos og beindi orðum sínum að konum sem ætla að láta stækka og lyfta afturenda sínum í náinni framtíð.
Myndskeið Gallegos hefur farið um netheima eins og eldur í sinu síðustu daga en alls hafa 16,5 milljónir horft á það.
@wildcard313 ##BBL ##bblrecovery ##bbljourney ##DisneyPlusVoices ##MyBrawlSuper
♬ original sound - Andrea Gallegos