Uppbygging humarstofnsins mun taka mörg ár

Vísbendingar eru um að humri kunni að fjölga en stofninn …
Vísbendingar eru um að humri kunni að fjölga en stofninn mun þurfa fleiri ár að ná fyrri styrk. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir

Óviss­an er mik­il og ef-in mörg þegar kem­ur að stöðu og upp­bygg­ingu humarstofns­ins. Það er þó ljóst að Haf­rann­sókna­stofn­un legg­ur til veiðibann á humri á þessu ári og því næsta. Hæpið er að það dugi til eitt og sér.

„Við erum alltaf að bíða eft­ir að sjá já­kvæðar breyt­ing­ar, sem ég viður­kenni að við höf­um ekki séð mikið af síðustu árin,“ seg­ir Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur á Haf­rann­sókna­stofn­un. Þegar hann er spurður hvenær þess megi vænta að ráðgjöf­in hljóði upp á um tvö þúsund tonn eins og var fyr­ir ára­tug, seg­ir hann lík­legt að verið sé að tala um 15 ára tíma­bil að lág­marki. Til að svo megi verða og stofn­inn nái sér á strik þurfi aðstæður að vera humr­in­um hag­stæðar og góð nýliðun að koma til, en lítið hef­ur sést af ung­humri síðustu ár.

Humarafli 1970-2021
Hum­arafli 1970-2021 mbl.is

Jón­as seg­ir að staða stofns­ins hafi aldrei verið jafn slæm. Hann úti­lok­ar þó ekki að stofn­inn geti skilað góðri nýliðun skap­ist rétt­ar aðstæður og seg­ir að stofn­inn verði að fá að njóta vaf­ans.

Hann nefn­ir já­kvæð teikn eins og að humarl­irf­ur hafi sést síðustu ár í yf­ir­borðssjón­um, en enn séu ár­gang­arn­ir mjög veik­ir. Þá seg­ir hann að sandsílið hafi tekið við sér aft­ur þannig að eitt­hvað hafi ástandið breyst í sjón­um. Lang­sótt sé að draga mak­ríl­inn til ábyrgðar vegna ófara humars­ins því nýliðun humars hafði hrakað mikið áður en hann kom til sög­unn­ar.

Jónas Páll Jónasson.
Jón­as Páll Jónas­son. Ljós­mynd/​Há­skóli Íslands

Eng­ar bein­ar rann­sókn­ir

Spurður um fyr­ir­hugaðar rann­sókn­ir á humarstofn­in­um í ár seg­ir Jón­as að lítið verði um bein­ar rann­sókn­ir á humri. Ákvörðun liggi fyr­ir að fara í taln­ing­ar á hol­um annað hvert ár og verður farið í slíkt verk­efni 2023.

Meðan staðan sé eins slæm og raun beri vitni sé það mat manna að ekki sé knýj­andi að telja hol­ur á hverju ári. Ráðgjöf­in sé nú til tveggja ára og þó svo já­kvæðar niður­stöður fengj­ust í ár myndi það ekki breyta ráðgjöf um tveggja ára veiðibann á þess­ari hæg­vaxta teg­und. Aðspurður seg­ir Jón­as að fjár­hag­ur Haf­rann­sókna­stofn­un­ar spili þarna inn í, en vegna þeirr­ar stöðu þurfi að for­gangsraða.

Nýliðun er í sögu­legu lág­marki og ár­gang­ar frá 2005 mjög litl­ir. „Verði ekki breyt­ing þar á má bú­ast við áfram­hald­andi minnk­un stofns­ins. Komi til auk­inn­ar nýliðunar á næstu árum má bú­ast við að stofn­inn muni ekki taka veru­lega við sér fyrr en 5 til 10 árum eft­ir að nýliðunin kem­ur fram,“ seg­ir í tækni­skýrslu með ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar, sem gef­in var út 17. des­em­ber síðastliðinn.

Lít­ill þétt­leiki humar­holna

Stór­lega var dregið úr sókn í humarstofn­inn þrjú síðustu ár sam­kvæmt til­lög­um Haf­rann­sókna­stofn­un­ar vegna bágs ástands stofns­ins og aðeins leyfðar svo­kallaðar könn­un­ar­veiðar. Gögn benda hins veg­ar til að þrátt fyr­ir minni sókn und­an­far­in ár fari ástand stofns­ins enn versn­andi og nýliðun sé lít­il sem eng­in. Þannig hef­ur stofn­stærð humars minnkað um 27% á tíma­bil­inu 2016-2021 og er nú í lág­marki, seg­ir í tækni­skýrsl­unni.

Þétt­leiki humar­holna við Ísland 2021 var met­inn með því lægsta sem þekk­ist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið (ICES) veit­ir ráðgjöf fyr­ir, en stofn­mæl­ing með nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi taln­inga á humar­hol­um hófst þegar stofn­inn var þegar í mik­illi lægð.

Gögn úr afla og stofn­mæl­inga­leiðangri benda einnig til að nýliðun sé mjög lít­il. Á sama tíma hef­ur veiðihlut­fall, skil­greint sem fjöldi humra í afla deilt með heild­ar­fjölda humra í stofn­mæl­inga­leiðangri, minnkað úr 1,9% í 0,2% frá ár­inu 2016.

Innflutningur á humri 2012 til 2021
Inn­flutn­ing­ur á humri 2012 til 2021 mbl.is

Afli á sókn­arein­ingu mæl­ist jafn­framt sá minnsti frá ár­inu 1970 og þó svo að út­gefn­ar afla­heim­ild­ir hafi aðeins numið 143 tonn­um reynd­ist ekki auðvelt að ná þeim afla. Haf­rann­sókna­stofn­un end­ur­skoðaði því grunn ráðgjaf­ar og lagði til að humar­veiðar yrðu ekki heim­ilaðar árin 2022 og 2023.

Eins og tvö síðustu ár legg­ur Haf­rann­sókna­stofn­un til að veiðar með fiski­botn­vörpu verði áfram bannaðar á af­mörkuðum svæðum í Breiðamerk­ur­djúpi, Horna­fjarðar­djúpi og Lóns­djúpi til vernd­ar humri.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: