Ráðherra sagður valda „ólýsanlegum vonbrigðum“

Arthúr Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda, og Örn Pálsson, framkvæmdastjóri sambandsins, …
Arthúr Bogason, formaður landssambands smábátaeigenda, og Örn Pálsson, framkvæmdastjóri sambandsins, sögðust á fundi með ráðherra sjávarútvegsmála óánægðir með þá ákvörðun að skerða aflaheimildir sem ætlað er strandveiðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lands­sam­band smá­báta­eig­enda (LS) er ósátt við að skerðing­ar í út­gefn­um at­vinnu- og byggðakvóta hafi aðeins bitnað á afla sem ætlað er strand­veiðum og al­menn­um byggðakvóta. Heilt yfir hef­ur at­vinnu- og byggðakvóti þurft að sæta sömu skerðing­um og afla­heim­ild­ir annarra veiða í sam­ræmi við ráðlegg­ing­ar Haf­rann­sókna­stofn­un­ar.

Í síðustu viku funduðu full­trú­ar LS með Svandísi Svavars­dótt­ur, land­búnaðar- og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra. Meðal þess sem rætt var á fund­in­um var ákvörðun ráðherra 21. des­em­ber um að skerða þorskveiðiheim­ild­ir sem ætlaðar eru til strand­veiða næsta sum­ar og al­menns byggðakvóta sem valdið hef­ur „ólýs­an­leg­um von­brigðum,“ að því er seg­ir í yf­ir­lýs­ingu á vef LS.

Vek­ur LS at­hygli á því að strand­veiðum er 2022 ætlað 8.500 tonn sem er 1.500 tonna skerðing frá síðasta sumri. „Á fund­in­um mót­mælti LS ákvörðun­inni harðlega. Sagði hana ganga þvert á þau mark­mið að tryggja 48 daga til strand­veiða. LS lagði áherslu á að strand­veiðar væru þær veiðar sem yllu minnstu raski í haf­rým­inu og minnstu kol­efn­is­sót­spori.  Auk þess hefðu þær reynst gríðarlega vel fyr­ir hinar dreifðu byggðir,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Hvöttu sam­tök­in ráðherra til að end­ur­skoða ákvörðun sína.

Í takti við þróun

Auk skertra heim­ilda til strand­veiða er al­menn­ur byggðakvóti til fiski­skipa skor­inn niður um 874 tonn, úr 4.500 tonn­um í 3.626 tonn. Hins veg­ar eru eng­ar skerðing­ar í skel- og rækju­bót­um, byggðakvóta Byggðastofn­un­ar, heim­ild­um frí­stunda­veiða eða línuíviln­un.

Sam­an­lögð skerðing at­vinnu- og byggðakvóta nem­ur 2.374 tonn­um sem er tæp­lega 11% niður­skurður. Þetta er í sam­ræmi við þróun í út­gefnu afla­marki en sam­drátt­ur í út­hlut­un afla­marks í þorski, ýsu, ufsa og karfa er 11,6%. (Ýsu­kvót­inn var 8 þúsund tonn­um minni en ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar þar sem viðbót­arkvóta var bætt við fisk­veiðiárið 2020/​2021).

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna fiskveiðiársins 2021/2022.
Ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar vegna fisk­veiðiárs­ins 2021/​2022. mbl.is
mbl.is

Bloggað um frétt­ina