Norska laxeldissamsteypan Norway Royal Salmon ASA (NRS) og dótturfélagið NRS Farming AS hafa í dag undirritað samning um kaup NRS Farming á öllu hlutafé í laxeldisfyrirtækinu SalmoNor AS.
Við viðskiptin verður NRS, sem er eigandi íslenska laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Vestfjörðum, sjötta stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi með heimildir til framleiðslu á 100 þúsund tonnum af laxi í Noregi og 24 þúsund tonnum á Íslandi.
„Sameinað félag verður í traustri stöðu til að nýta þau umtalsverðu innri vaxtartækifæri sem eru í SalmoNor og NRS,“ segir í fréttatilkynningu á vef NRS.
Fram kemur í fréttatilkynningunni að seljandi SalmoNor sé NTS ASA sem er eigandi tvo þriðju hlutafjár í NRS. Fyrir skömmu tókust NTS og SalMar, eigandi Arnarlax, á um meirihluta í NRS og bar NTS sigur úr býtum.
Kaupverð á SalmoNor nemur 6,3 milljörðum norskra króna, jafnvirði 93,7 milljarða íslenskra króna, og er 68,14% af kaupverði greitt með hlutafé og 31,86% með peningum.
„Með sameiningunni erum við að safna saman glæsilegri sérfræðiþekkingu í rekstri sem er mikilvægasti grunnurinn að áframhaldandi vexti og uppbyggingu og stofnun nýrra faglærðra starfa. Við hlökkum til að vinna saman að því að þróa sameiginlegt fyrirtæki í framtíðinni,“ segir Klaus Hatlebrekke, forstjóri NRS, í tilkynningunni.