Þrjú uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og dótturfélagsins Hugins hafa komið til hafnar með um fimm þúsund tonn af loðnu til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að takist að ljúka við löndun í nótt.
Fram kemur í færslu á vef Vinnslustöðvarinnar að KAP VE-4 kom með fyrsta loðnufarminn sinn til Vestmannaeyja aðfararnótt gærdags. Síðan mætti Ísleifur VE-63 og svo mætti Huginn VE-55 með sinn afla.
„Ætla má að lokið verði við að landa úr öllum skipum aðra nótt og mikið verður því um að vera hjá Unnari Hólm og hans liði í bræðslunni næstu sólarhringa,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, í færslunni.
„Loðnuvertíðin er sannarlega hafin og gott er það. Samt er ekki mikill kraftur í veiðunum enn sem komið er, frekar hægt að tala um kropp.“