„Við lönduðum rétt tæpum 3.211 tonnum af loðnu úr Berki í gær. Þetta er stærsti loðnufarmur sem hingað hefur borist og ég hef reyndar aldrei heyrt um stærri loðnufarm,“ segir Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóra í fiskismjölverksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðirfirði, í færslu á vef útgerðarinnar.
„Beitir hefur nokkrum sinnum landað hér yfir þrjú þúsund tonna förmum en það hefur ávallt verið kolmunni. Það gekk vel að landa í gær og vinnslan gengur ágætlega en auðvitað vill maður alltaf að þetta gangi örlítið betur en það gerir,“ segir Eggert.
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri í fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, kveðst heldur ekki muna til þess að landað hafi verið slíku magni. „Ég hef aldrei heyrt um stærri loðnufarm. Samkvæmt Fiskistofu landaði Beitir hjá okkur 3.117 tonnum í byrjun mars 2017 og þá var því haldið fram að um heimsmet væri að ræða. Síðan hefur Beitir einu sinni landað kolmunnafarmi sem var 3.220 tonn. Það kæmi mér ekki á óvart ef þetta væri stærsti loðnufarmur sögunnar,“ segir Hafþór.
Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Neskaupstaðar í dag með 2.045 tonn og er gert ráð fyrir að hluti aflans fari til manneldisvinnslu. Til þessa hefur öll loðna sem borist hefur til Síldarvinnslunnar á vertíðinni farið til framleiðslu á mjöli og lýsi, að því er segir í færslunni.