Mikil loðnuveiði síðustu dægur hefur orðið til þess að vinnslan í landi annar ekki aflanum. Tvö loðnuskip á vegum Síldarvinnslunnar sigldu í gær með aflann, Beitir NK áleiðis til Noregs með 3.000 tonn en síðdegis var ekki ákveðið hvert Polar Ammasak sigldi. Loðnan er orðin hæf til manneldis og hófst manneldisvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í gær.
Afar góð loðnuveiði var í fyrradag og skipin voru einnig að fá góð hol í fyrrinótt, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Vilhelm Þorsteinsson EA landaði um 2.060 tonnum í Neskaupstað og fór hluti aflans til manneldisvinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar, að því er fram kemur á vef Samherja. Fram til þessa hafði öll loðnan farið til framleiðslu á mjöli og lýsi.
Loðnan sem veiðist er að stækka og þess vegna líkur á að meira fari til manneldis. Löndun á frystingarloðnu úr Hákoni hófst í gær og Bjarni Ólafsson AK kemur í kjölfar hans. Barði NK fyllti sig í fyrrakvöld og var á leið til Akraness. Sömuleiðis var Polar Amaroq á landleið eftir að hafa fyllt sig í tveimur holum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.