Fjöldi skipa hafa landað loðnu víða og er vinnsla afurðanna í fullum gangi vítt og breitt um landið. Eins og sagt var frá í gær hafa verið ríflega fimmtán skip á miðunum og er tíður straumur skipa að landi með afla og aftur á miðin.
Barði NK, sem landaði á Akranesi á laugardag, er mættur á miðin norðaustur af landinu á ný og á það einnig við um Hoffell SU sem landaði á Fáskrúðsfirði um helgina.
Grænlenska skipið Polar Amaroq landaði á laugardag í Vestmannaeyjum á laugardag og sama dag hélt Polar Ammasak til Færeyja með fullfermi. Polar Ammasak er nú á leið aftur á miðin frá Færeyjum en Polar Amaroq er búið að koma við á miðunum og er komið til hafnar á Seyðisfirði.
Börkur NK kom til Neskaupstaðar á sunnudag með 2.655 tonn og fór hluti af þeim afla til manneldisvinnslu og er hann nú á fullu stími í átt að miðunum.
Þá sigldi Beitir NK alla leið til Vedde skammt frá Álasundi í Noregi með 3.061 tonn um helgina og er skipið nú á leið aftur á Íslandsmið. Haft er eftir Herberti Jónssyni, stýrimanni á Beiti, í færslu á vef Síldarvinnslunnar að vel hafi gengið að landa og að skipið geti líklega hafið veiðar á ný á morgun.
Í færslunni segir einnig að fjögur norsk loðnuskip séu komin á miðin norðaustur af landinu „en hafa lítið fengið enn sem komið er. Norsku skipin veiða í nót og hefur loðnan staðið of djúpt til að unnt sé að ná henni í nótina.“ Norðmenn eru með heimild til að veiða um 145 þúsund tonn af loðnu á Íslandsmiðum á yfirstandandi vertíð.