Stöðugt streymi loðnuskipa til og frá landi

Hoffell kom til hafnar á Fáskrúðsfirði á laugardag með 1.600 …
Hoffell kom til hafnar á Fáskrúðsfirði á laugardag með 1.600 tonn af loðnu. Skipið er eitt fjölmargar sem eru á stöðugri ferð milli miðanna og bryggju. mbl.is/Albert Kemp

Fjöldi skipa hafa landað loðnu víða og er vinnsla afurðanna í full­um gangi vítt og breitt um landið. Eins og sagt var frá í gær hafa verið ríf­lega fimmtán skip á miðunum og er tíður straum­ur skipa að landi með afla og aft­ur á miðin.

Barði NK, sem landaði á Akra­nesi á laug­ar­dag, er mætt­ur á miðin norðaust­ur af land­inu á ný og á það einnig við um Hof­fell SU sem landaði á Fá­skrúðsfirði um helg­ina.

Græn­lenska skipið Pol­ar Amar­oq landaði á laug­ar­dag í Vest­manna­eyj­um á laug­ar­dag og sama dag hélt Pol­ar Amma­sak til Fær­eyja með full­fermi. Pol­ar Amma­sak er nú á leið aft­ur á miðin frá Fær­eyj­um en Pol­ar Amar­oq er búið að koma við á miðunum og er komið til hafn­ar á Seyðis­firði.

Börk­ur NK kom til Nes­kaupstaðar á sunnu­dag með 2.655 tonn og fór hluti af þeim afla til mann­eld­is­vinnslu og er hann nú á fullu stími í átt að miðunum.

Gekk vel að landa í Nor­egi

Þá sigldi Beit­ir NK alla leið til Vedde skammt frá Álasundi í Nor­egi með 3.061 tonn um helg­ina og er skipið nú á leið aft­ur á Íslands­mið. Haft er eft­ir Her­berti Jóns­syni, stýri­manni á Beiti, í færslu á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar að vel hafi gengið að landa og að skipið geti lík­lega hafið veiðar á ný á morg­un.

Í færsl­unni seg­ir einnig að fjög­ur norsk loðnu­skip séu kom­in á miðin norðaust­ur af land­inu „en hafa lítið fengið enn sem komið er. Norsku skip­in veiða í nót og hef­ur loðnan staðið of djúpt til að unnt sé að ná henni í nót­ina.“ Norðmenn eru með heim­ild til að veiða um 145 þúsund tonn af loðnu á Íslands­miðum á yf­ir­stand­andi vertíð.

mbl.is