Þurftu að auglýsa aftur eftir íslenskum þorski

Leitað er að aflaheimildum í íslenskum þorski í skiptum fyrir …
Leitað er að aflaheimildum í íslenskum þorski í skiptum fyrir norskan. Vegna tæknilegra örðugleika þurfti að auglýsa á ný. mbl.is/Kristinn Benediktsson

„Vegna tæknilegra örðugleika var ekki hægt að vinna úr tilboðum sem bárust í þorsk í norskri lögsögu á tilboðsmarkaðnum sem auglýstur var 12. janúar,“ sagði í tilkynningu sem birt var á vef Fiskistofu í gær en er ekki lengur sjáanleg.

„Af þeim orsökum er óhjákvæmilegt að auglýsa aftur eftir tilboðum á nýjum tilboðsmarkaði og verður hann auglýstur eins fljótt og auðið er. Þeir aðilar sem sendu inn tilboð verða að bjóða aftur þegar hann verður opnaður. Fiskistofa biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ sagði í tilkynningunni.

Nú hefur verið auglýst á ný á vef Fiskistofu eftir íslenskum þorski í skiptum fyrir tæp 290 kíló af norskum þorski.

Ekki er ljóst í hvernig þeim aflaheimildum sem fást verður ráðstafað en stjórnvöld hafa gefið út að vonir séu um að þorskur sem fáist á tilboðsmarkaði kann að koma til með að bætast við aflaheimidlir strandveiða sem urðu fyrir 1.500 tonna skerðingum.

mbl.is