Bréf sjávarútvegsfyrirtækja 354 milljarða virði

Gengi bréfa Síldarvinnslunna, Brims og Iceland Seafood International hafa hækkað …
Gengi bréfa Síldarvinnslunna, Brims og Iceland Seafood International hafa hækkað á undanförnu ári svo um munar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bréf þeirra þriggja fyr­ir­tækja sem tengj­ast sjáv­ar­út­vegi og skráð eru í kaup­höll­ina hafa verið á góðri sigl­ingu og hafa hækkað mikið á und­an­förnu ári. Markaðsvirði fyr­ir­tækj­anna þriggja – Brims hf., Síld­ar­vinnsl­unn­ar hf. og Ice­land Sea­food In­ternati­onal hf. – nem­ur 354 millj­örðum króna.

Gengi hluta­bréfa Brims hef­ur frá 25. janú­ar 2021 hækkað um 38,4% úr 54,2 krón­um á hlut í 75 krón­ur á hlut. Er markaðsvirði fé­lags­ins því nú 146,7 millj­arðar króna. Stærsti hlut­hafi Brims er Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur sem fer með 33,92% hlut í fé­lag­inu, en eig­andi þess er Guðmund­ur Kristjáns­son for­stjóri Brims.

Næst stærsti hlut­haf­inn í Brimi er Líf­eyr­is­sjóður starfs­manna rík­is­ins sem fer með 17,42% og er þriðji stærsti hlut­haf­inn Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna sem fer með 10,57% hlut. Sam­tals fara líf­eyr­is­sjóðir sem eru meðal tíu stærstu hlut­hafa með ríf­lega 30% hlut í Brimi, að markaðsvirði rúm­lega 45 millj­arða króna.

Yfir 50% hækk­un

Síld­ar­vinnsl­an var skráð í kaup­höll­ina í mái á síðasta ári og hafa bréf­in verið eft­ir­sótt. Eft­ir viðskipti fyrsta dags 27. maí var gengi bréf­anna 65,2 krón­ur en gengi hluta­bréf­anna hef­ur hækkað um 51,8% frá þeim tíma og er nú 99 krón­ur. Markaðsvirði Síld­ar­vinnsl­unn­ar er því 166,9 millj­arðar króna.

Sam­herji Ísland ehf. er stærsti hlut­hafi Síld­ar­vinnsl­unn­ar með 32,64% hlut. Kjálka­nes ehf. er næst stærsti hlut­haf­inn með 17,44% hlut en það fé­lag er í eigu sömu aðila og fara með út­gerðarfé­lagið Gjög­ur hf. Þá fer Sam­vinnu­fé­lag út­gerðarmanna í Nes­kaupstað með 10,97% hlut í Síld­ar­vinnsl­unni.

Hækkað minna en hinna

Gengi bréfa Ice­land Sea­food In­ternati­onal hafa einnig hækkað á und­an­förnu ári en þó ekki jafn mikið og bréf annarra fyr­ir­tækja sem tengj­ast sjáv­ar­út­vegi. Gengi bréfa fé­lags­ins er nú 15,1 króna á hlut sem er 17,9% hærra en fyr­ir ári þegar gengi þeirra var 12,8 krón­ur.

Þá nem­ur markaðsvirði fé­lags­ins 40,4 millj­örðum króna. Í því sam­hengi má nefna að Ice­land Sea­food sér­hæf­ir sig í vinnslu og sölu afurða en er ekki með afla­heim­ild­ir eins og Brim og Síld­ar­vinnsl­an.

Stærsti hlut­hafi Ice­land Sea­food In­ternati­onal er Sjáv­ar­sýn ehf. sem fer með 10,83% hlut en fé­lagið er í eigu Bjarna Ármanns­son­ar for­stjóra Ice­land Sea­food. Þá fer FISK Sea­food, sem er í eigu Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga, með næst stærsta hlut í fé­lag­inu eða 10,28%.

Nes­fisk­ur ehf. fer með 10,2% hlut, Jakob Val­geir ehf. með 10,9% og Lífs­verk líf­eyr­is­sjóður með 6,01%. Alls fara fimm stærstu hlut­haf­ar með 47% hlut.

mbl.is