Kardashian-fjölskyldan ein sú áhrifamesta

Systurnar Kourtney, Kylie og Kim.
Systurnar Kourtney, Kylie og Kim. Skjáskot/Instagram

Kardashian-fjölskyldan er líklegast ein sú áhrifamesta í heiminum í dag. Samanlagður fjöldi fylgjendahóps fjölskyldunnar á samfélagsmiðlum telur fleiri en alla íbúa jarðar. Þá er vert að hafa í huga að ekki eru fylgjendatölur allra fjölskyldumeðlima listaðar upp. Kris Jenner, móðir systranna, er með stóran fylgjendahóp, sem og feður þeirra og bróðir. Fyrirtæki, tónleikahátíðir, verslanir og fleira veraldlegt, annað en mannsbörn, getur blekkt fylgjendafjölda fjölskyldunnar, svo því sé haldið til haga.

Samkvæmt frétt frá The Sun braut fjölskyldan milljóna múrinn á dögunum þar sem örtvaxandi fylgjendahópur þeirra fór yfir einn milljarð. Þetta er svo stór tala sem skiljanlega vefst fyrir hinum venjulega manni.

Heimsyfirráð Kardashian-fjölskyldunnar

Kardashian-systurnar eru án efa áhrifamestu systur heims. Útlitslegir þættir þeirra virðast eftirsóknarverðir á heimsvísu og hafa fegrunaraðgerðir sem þær hafa gengist undir náð miklu flugi víðs vegar um heim. 

Kylie Jenner er langvinsælasta konan á Instagram um þessar mundir. Nýverið setti hún nýtt met þegar hún eignaðist yfir 305 milljónir fylgjenda. Þar toppaði hún söngkonurnar Ariönu Grande og Selenu Gomez sem áður trónuðu á toppnum. 

Kim Kardashian er ekki svo langt frá yngri systur sinni þar sem hún er með 282 milljónir fylgjenda. Khloé Kardashian er í þriðja sæti af systrunum og er með 216 milljónir fylgjendur en Kendall Jenner fylgir henni fast á eftir með 215 milljónir.

Elsta Kardashian-systirin, Kourtney, er með minnsta fylgjendahópinn af systrum sínum en hann telur 161 milljón fylgjenda. Sem er alls ekkert slor.   

Til gamans má geta að samanlagður heildarfjöldi fylgjenda allrar fjölskyldunnar er næstum því tvöfalt fleiri en allir íbúar Brasilíu, Rússlands og Bandaríkjanna samanlagt.

mbl.is