„Hér er komin alvöru gusa“

Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK, segir veiði á loðnumiðunum …
Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóri á Berki NK, segir veiði á loðnumiðunum ganga vel. Skipið er nú á leið til hafnar. Samsett mynd

Veiðin á loðnumiðunum norðaust­ur af land­inu geng­ur vel sam­kvæmt skip­stjór­un­um á Berki NK og Beiti NK. Börk­ur er nú stadd­ur norður af Borg­ar­f­irði eystri og er á leið með afla til Nes­kaupstaðar, en Beit­ir er á veiðum.

Í færslu sem birt var á vef Síld­ar­vinnsl­unn­ar síðdeg­is í gær sagði Hjörv­ar Hjálm­ars­son, skisptjóri á Berki, skipið hafa verið á veiðum 50 sjó­míl­ur norðaust­ur af Langa­nesi.

„Hér eru ís­lensku skip­in og einnig græn­lensku skip­in Pol­ar Amar­oq og Pol­ar Amma­sak. Við vor­um að enda við að dæla 590 tonn­um og hér er fín­asta veiði. Hér er kom­in al­vöru gusa og tölu­vert mikið að sjá. Við erum komn­ir með 2.840 tonn um borð og von­andi þurf­um við bara eitt hol í viðbót til að fylla. Hér er bjart yfir mönn­um,“ seg­ir Hjörv­ar.

„Mér líst þrusu vel á fram­haldið“

Veiðin hef­ur einnig gengið vel hjá áhöfn­inni á Beiti, að sögn Tóm­as­ar Kára­son­ar, skip­stjóra skips­ins. Hann seg­ir í færsl­unni Beiti hafa verið mætt á miðin aðfar­arnótt gær­dags­ins eft­ir að hafa landað 2.500 tonn­um í Nes­kaupstað.

„Við erum bún­ir að taka tvö hol, eitt þriggja tíma og eitt átta tíma, og komn­ir með 600 tonn. Loðnan sem fæst er fal­leg og stærri en við höf­um verið að fá að und­an­förnu. Mér líst þrusu vel á fram­haldið; það er verið að veiða loðnu út um allt hérna, það er ekki verið að veiða úr einni göngu,” var haft eft­ir Tóm­asi í færsl­unni.

Beitir NK 123.
Beit­ir NK 123. mbl.is/​Hafþór Hreiðars­son
mbl.is