Svavar síungur enda aldur bara tala

Svavari Benediktssyni fellur aldrei verk úr hendi.
Svavari Benediktssyni fellur aldrei verk úr hendi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúm­um mánuði fyr­ir jól var Svavar Bene­dikts­son, fyrr­ver­andi tog­ara­skip­stjóri, allt í einu kom­inn á tíræðis­ald­ur en hann seg­ir það engu hafa breytt; hann haldi áfram í lík­ams­rækt­inni, stundi sína vinnu, sjái um sig sjálf­ur, fari reglu­lega til Kana­ríeyja og láti áfengið eiga sig. „Ald­ur er bara tala,“ legg­ur hann áherslu á og ekki síður kær­leik­ann.

Veiru­skratt­inn er það eina sem Svavar ótt­ast. „Ég þori ekki að fara í „gymmið“, er svo hrædd­ur við að smit­ast, en geng úti klukku­tíma á dag. Þegar menn eru orðnir níræðir verða þeir að hreyfa sig.“

Þegar Svavar var á ní­unda ári tók faðir hans, Bene­dikt Ögmunds­son skip­stjóri á gamla Maí, hann fyrst með sér út á sjó. „1939 var fjöl­skyld­an allt sum­arið í húsi sem hét Strýta, skammt frá Sól­bakka í Önund­arf­irði, þar sem pabbi landaði karfa í bræðslu en hann var á veiðum á Hal­an­um,“ rifjar Svavar upp. „Mér þótti gam­an að vaða í sjón­um og var alltaf blaut­ur upp að mitti, en mamma var hrædd um að ég færi mér að voða svo karl­inn tók mig um borð.“ Hann seg­ist bara hafa verið með körl­un­um og þótt það gam­an. „Ég þræddi í nál­ar fyr­ir þá. Lé­legt garn var í troll­inu og það var alltaf rifið, maður. Því var þetta stöðug neta­vinna.“

Hann út­skrifaðist úr Stýri­manna­skól­an­um vorið 1953 og hélt áfram að vinna sig upp. „Þótt karl­inn hann pabbi væri skip­stjóri naut ég engra for­rétt­inda hjá hon­um. Hann píndi mig áfram al­veg hreint. Þegar ég kom al­kom­inn í land sagði kon­an við mig: Svavar. Á 40 árum hef­ur þú verið fjór­um sinn­um heima á jól­un­um. Málið er að ég var einn þeirra sem fóru alltaf út 16. des­em­ber til að ná fyrstu söl­unni í Grims­by eft­ir jól­in. Þá var verðið hæst.“

Rétt viðbrögð

Hann lauk far­sæl­um ferli á tog­ar­an­um Apríl og veiddi vel. „Frá vori fram á haust 1983 landaði ég full­fermi 17 sinn­um í röð; við fór­um aust­ur fyr­ir land og vor­um allt niður í fjóra daga að fylla.“ Þetta ár var hann einn af afla­hæstu skip­stjór­un­um, en minn­ist þess sér­stak­lega þegar litlu hafi munað að illa færi. Hann hafi verið á leið í sölutúr með 240 tonn af þorski þegar Apríl fékk á sig brot­sjó um 90 míl­ur suðaust­ur af Vest­manna­eyj­um.

„Ég hef aldrei séð ann­an eins brot­sjó, þetta var svaka­leg­ur skafl, um 20 metr­ar og dauðans al­vara, en ég var vel und­ir­bú­inn og vissi hvað þurfti að gera.“ Hann hafi verið kom­inn með skipið upp í öld­una, það hafi verið stopp, þegar hann hafi óvart sett stjórn­stöng­ina í bakk­gír og í því hafi fald­ur­inn skollið á brimbrjótn­um við an­ker­is­spilið.

„Kraft­ur­inn var svo mik­ill að brimbrjót­ur­inn rifnaði upp og stóð upp í loftið eins og gorm­ur, og skipið hent­ist fleiri, fleiri metra aft­ur á bak við höggið. Ef ég hefði siglt á móti skafl­in­um hefði stuðið orðið enn meira og jafn­vel sópað brúnni af. Engu að síður titraði allt og skalf, rúður í brúnni nærri brotnuðu, dekkið fyr­ir fram­an hana gaf sig og fór 15 senti­metra niður, radar­inn fauk út í busk­ann og mikl­ar skemmd­ir urðu á inn­rétt­ing­um, þar sem karl­arn­ir voru. Sem bet­ur fer slasaðist eng­inn, við héld­um áfram og ég seldi fisk­inn í Grims­by. Eft­ir stend­ur að litlu munaði að við dræp­umst all­ir.“

Sjó­manns­lífið átti vel við Svavar. „Það var svaka­lega erfitt að koma al­kom­inn í land 1984. Rosa­lega togaði sjór­inn í mig.“ En hann fann fjöl­ina á ný hjá Atlasi hf. í Hafnar­f­irði þar sem hann hef­ur unnið síðan, und­an­far­in ár í hluta­starfi. „Ég geng frá reikn­ing­um og svona,“ seg­ir hann. „En helg­in hjá mér byrj­ar á fimmtu­degi,“ bæt­ir hann við og seg­ist fyrst núna vera að jafna sig á skyndi­legu frá­falli eig­in­kon­unn­ar, Sonju Jó­hönnu Kristjáns­dótt­ur, 2009. „Hún var ein­stak­lega góð kona, en nú þríf ég af mér, strauja skyrt­urn­ar, pressa bux­urn­ar og er far­inn að malla ofan í mig. Ég fór frek­ar illa út úr þriðju spraut­unni, var hálf­rænu­laus í tvo daga eft­ir að hafa ekki verið veik­ur í um 20 ár, en ætla til Kanarí fljót­lega og vera fram að pásk­um.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: