Slapp vel í stríðunum

Vanir menn Jarl Bjarnason og Haukur D. Grímsson til hægri …
Vanir menn Jarl Bjarnason og Haukur D. Grímsson til hægri að störfum. Ljósmyndir/Guðmundur St. Valdimarsson

Smyrj­ar­inn Hauk­ur Davíð Gríms­son hef­ur starfað lengst nú­ver­andi manna á varðskip­um Land­helg­is­gæsl­unn­ar. „Ég byrjaði 1972,“ seg­ir hann eins og ekk­ert sé eðli­legra en að vinna í hálfa öld á sama stað og orðleng­ir það ekki frek­ar. „Þetta er góður vinnustaður.“

Sveinn Magnús­son, frændi Hauks, var smyrj­ari á gamla Þór og út­vegaði ung­lingn­um vinnu á skip­inu. „Ég byrjaði sem messagutti og síðan fór ég sem aðstoðarmaður í vél á Óðni árið eft­ir en skipti yfir á Tý, sem var ný­kom­inn til lands­ins, 1975,“ rifjar Hauk­ur upp. Hann hafi verið smyrj­ari á Tý til 1986, unnið í landi í þrjú ár, farið síðan á Óðin 1989, verið á hon­um þar til Gæsl­an hafi látið hann frá sér, og síðan haldið upp­tekn­um hætti á Tý þar til Freyja hafi verið tek­in í notk­un á nýliðnu ári. Frá því hafi hann verið smyrj­ari á nýj­asta skipi flot­ans og kunni því vel. „Þeir kalla mig yf­ir­s­myrj­ara en ég er bara smyrj­ari.“

Góður starfs­andi

Lífið á sjón­um á vel við Hauk. „Hérna er góður starfs­andi, ágæt­is­laun og löng frí á milli túra,“ út­skýr­ir hann. Fimm manns eru í vél­ar­rúm­inu, þrír vél­stjór­ar og tveir smyrj­ar­ar. „Óskar Skúla­son er smyrj­ari með mér og hann hef­ur nærri unnið jafn lengi og ég hjá Gæsl­unni.“ Unnið er á 12 tíma vökt­um, vetr­artúr­arn­ir standa yfir í þrjár vik­ur og sum­artúr­arn­ir í 17 daga en að auki er unnið tvo daga í landi fyr­ir og eft­ir hvern túr.

„Ég á gamla bíla og stöðugt þarf að dytta að þeim en svo slappa ég líka bara af í frí­um og geri mig klár­an fyr­ir næsta túr, er hress og kát­ur, þegar ég fer út aft­ur.“

Óvenju­leg lífs­reynsla

Bret­ar tóku stækk­un ís­lensku land­helg­inn­ar óst­innt upp og í kjöl­farið var has­ar á miðunum. „Ég tók þátt í tveim­ur þorska­stríðum, í 50 og 200 mílna stríðunum, fyrst á Óðni og svo á Tý.“ Hann seg­ir það hafa verið óvenju­lega lífs­reynslu. „Mér fannst þetta mjög gam­an, spenn­andi, en ég fékk reynd­ar stund­um í mag­ann, þegar þeir sigldu á okk­ur og við vor­um varn­ar­laus­ir niðri í vél, fund­um bara þegar dall­ur­inn skall á okk­ur.“

Varðskipið Týr og bresk freigáta takast á.
Varðskipið Týr og bresk freigáta tak­ast á.

Þrátt fyr­ir óviss­una seg­ist hann aldrei hafa verið hrædd­ur um líf sitt. „Ég vissi að þeir myndu aldrei ganga svo langt.“ Engu að síður hafi ein árás­in á Tý verið mjög al­var­leg. „Yf­ir­leitt létu þeir sér nægja að fara með síðu í síðu en í þessu til­viki sigldu þeir með stefnið inn í síðuna. Sem bet­ur fer var ég í fríi í þess­um túr, eina fríið mitt í þorska­stríðunum.“

Eðli­lega hafa hlut­ir al­mennt breyst til batnaðar á und­an­förn­um 50 árum. „All­ur aðbúnaður hef­ur breyst, hann var ekki merki­leg­ur á Óðni, lagaðist á Tý og allt er mun full­komn­ara á Freyju en við höf­um áður átt að venj­ast.“ Áður hafi menn verið löðrandi í smurol­íu en svo sé varla leng­ur. „Stund­um lend­um við samt í smá has­ar með ým­is­legt en nú erum við reynd­ar mest í eft­ir­liti og viðhaldi, að þrífa og mála og aðstoða vél­stjóra við það sem þarf að gera.“

Hauk­ur seg­ir að vel gangi að aðlag­ast nýju skipi. Freyja sé lík Þór, til dæm­is séu sams kon­ar vél­ar í skip­un­um, og marg­ir hafi farið af Þór yfir á Freyju, meðal ann­ars yf­ir­vél­stjór­inn. „Við erum all­ir sam­an í þessu, forðumst vesen og reyn­um að vera með allt á hreinu. Það er líka skemmti­leg­ast.“

24. mars 2020 voru 45 ár frá því varðskipið Týr …
24. mars 2020 voru 45 ár frá því varðskipið Týr kom fyrst til Reykja­vík­ur. Hauk­ur var með lengsta starfs­ald­ur og skar af­mælistert­una. Ljós­mynd/​Guðmund­ur St Valdi­mars­son
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: