Setti allt virði sitt í útlit og missti tökin á neyslunni

Dagbjört Rúriksdóttir er gestur hlaðvarpsins, Sterkari saman.
Dagbjört Rúriksdóttir er gestur hlaðvarpsins, Sterkari saman.

Tónlistarmaðurinn Dagbjört Rúriksdóttir hefur verið í bata frá vímuefnum í rúmlega tvö ár. Hún hefur einstaka nærveru og jákvæða sýn á lífið þrátt fyrir mörg áföll og erfiðleika. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterkari saman. 

„Ég hafði alltaf verið glöð sem barn þrátt fyrir að hafa verið lögð í einelti. Manneskja náin mér sem ég treysti kallaði mig druslu og ég trúði honum,“ segir Dagbjört og bætir við að eftir það hafi hún farið að haga sér í samræmi við það.

„Ég fór að leita í vafasaman félagsskap og haga mér í samræmi við það sem ég hélt að fólki fyndist um mig.“

Áður en Dagbjört vissi af var líf hennar farið að snúast um helgarnar, hún hugsaði um að detta í það og lítið annað.

„Ég setti allt mitt virði í útlit og það sem aðrir sögðu um mig, maður á ekki að hengja virði sitt á það sem fölnar,“ segir hún og brosir út að eyrum. 

Dagbjört talar um að hafa breyst mikið þegar sponsorinn hennar fór með hana á samkomu, hún lýsir þeirri upplifun fyrir okkur en fyrst vildi hún ekki vera þarna og fannst þetta óþægileg tilfinning.

„Allt í einu var eins og gríman mín væri að bráðna af, þykka gríman sem ég hef barist við að halda uppi öll þessi ár. Allt í einu var ég ein af öllum en ekki aðskilin frá öllum, ég elskaði alla því ég sá mig í þeim og þá í mér, þetta var ótrúlegt.“

Bataferli Dagbjartur hefur verið ferðalag þar sem hún lærir jafnt og þétt á sjálfa sig líka, hún vinnur mikla sjálfsvinnu og gefur af sér til þess að viðhalda góðu jafnvægi og vinna í sporunum.

„Ég gef af mér og miðla minni reynslu, bæði sögunni minni á fundum og því að hafa verið þolandi ofbeldis. Ég aðstoða aðra sem vilja vera í bata og segi söguna mína í tónlist til dæmis,“ segir Dagbjört sem gengur einnig undir listamannsnafninu DIA þar sem hún tjáir sig í gegnum tónlistina.

Við mælum með að allir hlusti á þessa mögnuðu stelpu sem hefur gengið í gegnum miklar áskoranir en lítur alltaf á björtu hliðarnar, sama hvað.




Tinna Barkardóttir, Dagbjört Rúriksdóttir og Elín. Tinna og Elín eru …
Tinna Barkardóttir, Dagbjört Rúriksdóttir og Elín. Tinna og Elín eru með hlaðvarpið, Sterkari saman.
Dagbjört Rúríksdóttir tók þátt í Ungrú Ísland 2016.
Dagbjört Rúríksdóttir tók þátt í Ungrú Ísland 2016.
mbl.is