18 látið lífið eftir mikil flóð

00:00
00:00

Að minnsta kosti 18 hafa látið lífið og hátt í 50 slasast í flóði sem varð í Quito, höfuðborg Ekvador. Vatns­straum­ur­inn hef­ur rifið með sér bíla og valdið mikl­um skemmd­um á bygg­ing­um. Þá varð einnig raf­magns­laust í hluta borg­ar­inn­ar eft­ir að raf­magns­staur­ar féllu í vatns­straumn­um.

16 manns er nú saknað og hafa 46 særst, þar af sex al­var­lega.

Úrhell­is­rign­ing var í gær í Ekvador en slíkt magn af rign­ingu hef­ur ekki sést frá því árið 2003. Er flóðið eitt það um­fangs­mesta í tvo ára­tugi.

Vís­inda­menn telja að lofts­lags­breyt­ing­ar ýti und­ir hættu á mik­illi rign­ingu með aukn­um hlý­ind­um í and­rúms­loft­inu.

Slökkviliðsmenn og hermenn hjálpast að við að leita að fórnarlömbum.
Slökkviliðsmenn og her­menn hjálp­ast að við að leita að fórn­ar­lömb­um. AFP

Flæddi yfir íþrótta­svæði

Tug­ir her­manna voru kallaðir út til að aðstoðað fólk við að leita skjóls frá flóðinu og hafa marg­ir verið flutt­ir í skýli. Búið er að meðhöndla marga við of­kæl­ingu.

Santiago Guar­deras borg­ar­stjóri Quito sagði úr­hell­is­rign­ing­una hafa verið svo mikla að hún hafi yf­ir­bugað varn­ir í fjalls­hlíðum við borg­ina sem átti að grípa vatnið.

Mikið magn vatns streymdi niður hlíðina í kjöl­farið sem flæddi yfir íþrótta­svæði þar sem blakíþrótta­menn voru við æf­ing­ar og áhorf­end­ur fylgd­ust með. Ekki ligg­ur fyr­ir hversu marg­ir þeirra eru meðal fórn­ar­lambanna sem lét­ust.

Unnið er nú að því að ryðja vegi og laga þær varn­ir sem brugðust.

AFP
mbl.is