Lægsta boð 18 milljónir fyrir tvö varðskip

Varðskipin Týr og Ægir hafa verið til sölu en aðeins …
Varðskipin Týr og Ægir hafa verið til sölu en aðeins tvö tilboð báurst í þau. Mikill munur er á þeim. mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Alls mun­ar 107 millj­ón­um á þeim tveim­ur til­boðum sem bár­ust í varðskip­in Tý og Ægi, sem hafa verið á sölu frá síðasta hausti. Hæsta til­boðið nem­ur 125 millj­ón­um króna fyr­ir bæði skip­in en hitt aðeins 125 þúsund evr­um, jafn­v­irði 18 millj­óna króna. Verið er að skoða mögu­leika á gerð samn­ings við hæst­bjóðanda.

Þetta kem­ur fram í svari Rík­is­kaupa vegna fyr­ir­spurn­ar 200 mílna.

Sagt var frá því í Morg­un­blaðinu í síðasta mánuði að aðeins full­trú­ar tveggja aðila mættu til að skoða skip­in. Fóru skoðun­ar­ferðir um Tý og Ægi fram í des­em­ber 2021 og byrj­un janú­ar 2022.

„Að lokn­um aug­lýs­inga­fresti bár­ust tvö til­boð í skip­in. Ann­ars veg­ar til­boð sem nem­ur 125 millj­ón­um ís­lenskra króna fyr­ir bæði skip­in og hins veg­ar til­boð sem nem­ur 125.000 evr­um. Verið er að leggja mat á áfram­hald­andi samn­ings­grund­völl við hæst­bjóðanda,“ seg­ir í svari Rík­is­kaupa.

Benda Rík­is­kaup á að sölu­ferlið sé markaðskönn­un þar sem óskað er eft­ir til­boðum en til­boðin séu ekki skuld­bind­andi fyrr en nást samn­ing­ar um sölu.

Fjög­ur sýndu áhuga fyr­ir ári

Varðskipið Ægir var smíðað í Ála­borg 1968 og er 70,1 metri að lengd, og 10 metr­ar á breidd. Týr var smíðaður í Árós­um 1975 og er 71,5 metr­ar að lengd og 10 metr­ar á breidd.

Í byrj­un síðasta árs gáfu fjög­ur fyr­ir­tæki sig fram þegar Rík­is­kaup óskuðu eft­ir til­boðum og góðum hug­mynd­um um nýt­ingu Ægis. Meðal hug­mynda var að nýta skipið fyr­ir snjóflóðasafn á Flat­eyri, en ekk­ert varð úr þeim áform­um.

Ægir hef­ur ekki verið í þjón­ustu fyr­ir Land­helg­is­gæsl­una um tíma en aðeins ár er frá því ákveðið var að finna annað skip í stað Týs. Var sú ákvörðun tek­in í kjöl­far þess að upp­götvaðist að vél sem stýr­ir skrúfu­búnaði skips­ins var illa skemmd. Jafn­framt kom í ljós að tveir af tönk­um skips­ins voru mikið skemmd­ir sök­um tær­ing­ar og var því ekki talið svara kostnaði að gera við Tý.

Lauk Týr sinni síðustu ferð í nóv­em­ber á síðasta ári.

Aldrei bet­ur búin

Í fram­haldi af ákvörðun um að leggja Tý hófst leit að nýju varðskipi. Var á end­an­um valið þjón­ustu­skip úr ol­íuiðnaði sem gerðar voru breyt­ing­ar á. Skipið fékk síðan nafnið Freyja og er gert út frá Sigluf­irði.

Sam­hliða því að fest voru kaup á nýju skipi hef­ur Land­helg­is­gæsl­an einnig eflt þyrlu­kost sinn og var haft eft­ir Georg Lárus­syni, for­stjóra Land­helg­is­gæsl­unn­ar, í viðtali í blaði 200 mílna í des­em­ber að stofn­un­in hafi lík­lega aldrei verið jafn vel búin og nú.

„Land­helg­is­gæsl­an hef­ur aldrei verið jafn vel tækj­um búin og fyr­ir það erum við afar þakk­lát. Ég held að það megi al­veg full­yrða að árið 2021 sé eitt viðburðarík­asta ár í sögu Land­helg­is­gæsl­unn­ar sé litið til fram­fara í aðbúnaði starfs­fólks og auk­inn­ar björg­un­ar­getu þjóðar­inn­ar,“ sagði Georg.

mbl.is