Íslensku, færeysku og grænslensku loðnuskipin eru nú á veiðum við Vopnafjarðargrunn sem er aðeins sunnar en þau voru. Lengst af fóru veiðar fram við Langanesgrunn.
Á sama tíma hafa norsku skipin, sem aðeins fá að veiða með nót, færst nær landi. Áður voru þau að veiða um 50 mílur austur af Djúpavogi við Rauðatorgið svokallaða, en eru nú um 20 mílur austur af Breiðdalsvík á Skrúðsgrunni.
Veiðar íslensku skipanna hafa gengið vel og kom Hoffellið til hafnar á Fáskrúðsfirði með fullfermi í morgun, alls 1.650 tonn af loðnu. Fram kemur á vef Loðnuvinnslunnar að með þessum afla hefur skipið landað 10.400 tonnum á yfirstandandi vertíð en verksmiðja fyrirtækisisn hefur tekið við 15.000 tonnum.
Hoffell heldur til veiða á ný strax að lokinni löndun.
Ekki er vitað hvort Hafrannsóknastofnun mun leggja til að heildarafli vertíðarinnar verði skertur um 104 þúsund tonn í 800 þúsund tonn, en mælingar vetrarleiðangurs stofnunarinnar gengu ekki sem skildi.
Verið er að skoða hvort haldi verður til mælinga á ný.