Styður ekki frumvarp um strandveiðar

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að mati Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra verður ekki náð utan um þau markmið þess hluta fiskveiðistjórnarkerfisins sem sérstaklega er hugsaður til þess að sinna atvinnu- og byggðaverkefnum, þar með talið strandveiðum, með því að samþykkja frumvarp til laga frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttir, varaþingmanni Vinstri grænna, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.

Frum­varp Lilju Raf­n­eyj­ar geng­ur fyrst og fremst út á að tryggja strand­veiðisjó­mönn­um þá 48 daga til veiða sem þeir hafa kraf­ist með því að auka heim­ild­ir ráðherra til að flytja afla­heim­ild­ir milli flokka inn­an at­vinnu- og byggðakvóta­kerf­is­ins.

„Við verðum að gæta að öllum þeim sjónarmiðum sem hér eru undir. Þau markmið sem hér eru nefnd og lúta að atvinnu- og byggðaverkefnum, og eru kannski dýrmætust þegar þau eru tekin til umræðu, eru þau að við séum með réttu að styðja við byggðirnar í landinu, að við tryggjum í raun að sá afli sem er undir þessum byggðaverkefnum skili sér til byggðanna í landinu,“ sagði Svandís.

Frumvarpið vakið væntingar meðal strandveiðimanna

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, hafði spurt Svandísi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort að hún ætlaði sér að styðja áðurnefnt frumvarp. Sagði hann frumvarpið hafa vakið miklar væntingar meðal strandveiðimanna og að félög strandveiðimanni víða um landið hafi lýst yfir stuðningi við það.  Þá sagði hann Flokk fólksins styðja frumvarpið heils hugar.

„Ég vænti þess að hæstvirtur þingmaður sé sammála mér um að spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er hvaða verkefni hafa dugað best til að styðja við atvinnustarfsemi í dreifðum byggðum og hvað skilar mestum árangri miðað við þau verðmæti sem ráðstafað er til þeirra verkefna. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli,“ sagði Svandís og bætti við:

„Skilar tonn í skelbætur sama árangri og tonn í strandveiðar? Sú spurning liggur í loftinu og þeirri spurningu þarf að svara. Þessi umfjöllunarefni verðskulda það að það sé farið í saumana á málunum áður en ákvarðanir eru teknar.“

mbl.is