Styður ekki frumvarp um strandveiðar

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að mati Svandís­ar Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra verður ekki náð utan um þau mark­mið þess hluta fisk­veiðistjórn­ar­kerf­is­ins sem sér­stak­lega er hugsaður til þess að sinna at­vinnu- og byggðaverk­efn­um, þar með talið strand­veiðum, með því að samþykkja frum­varp til laga frá Lilju Raf­n­eyju Magnús­dótt­ir, varaþing­manni Vinstri grænna, um breyt­ingu á lög­um um stjórn fisk­veiða.

Frum­varp Lilju Raf­n­eyj­ar geng­ur fyrst og fremst út á að tryggja strand­veiðisjó­mönn­um þá 48 daga til veiða sem þeir hafa kraf­ist með því að auka heim­ild­ir ráðherra til að flytja afla­heim­ild­ir milli flokka inn­an at­vinnu- og byggðakvóta­kerf­is­ins.

„Við verðum að gæta að öll­um þeim sjón­ar­miðum sem hér eru und­ir. Þau mark­mið sem hér eru nefnd og lúta að at­vinnu- og byggðaverk­efn­um, og eru kannski dýr­mæt­ust þegar þau eru tek­in til umræðu, eru þau að við séum með réttu að styðja við byggðirn­ar í land­inu, að við tryggj­um í raun að sá afli sem er und­ir þess­um byggðaverk­efn­um skili sér til byggðanna í land­inu,“ sagði Svandís.

Frum­varpið vakið vænt­ing­ar meðal strand­veiðimanna

Eyj­ólf­ur Ármanns­son, þingmaður Flokks fólks­ins, hafði spurt Svandísi í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag hvort að hún ætlaði sér að styðja áður­nefnt frum­varp. Sagði hann frum­varpið hafa vakið mikl­ar vænt­ing­ar meðal strand­veiðimanna og að fé­lög strand­veiðimanni víða um landið hafi lýst yfir stuðningi við það.  Þá sagði hann Flokk fólks­ins styðja frum­varpið heils hug­ar.

„Ég vænti þess að hæst­virt­ur þingmaður sé sam­mála mér um að spurn­ing­in sem við þurf­um að spyrja okk­ur er hvaða verk­efni hafa dugað best til að styðja við at­vinnu­starf­semi í dreifðum byggðum og hvað skil­ar mest­um ár­angri miðað við þau verðmæti sem ráðstafað er til þeirra verk­efna. Það er auðvitað það sem skipt­ir mestu máli,“ sagði Svandís og bætti við:

„Skil­ar tonn í skel­bæt­ur sama ár­angri og tonn í strand­veiðar? Sú spurn­ing ligg­ur í loft­inu og þeirri spurn­ingu þarf að svara. Þessi um­fjöll­un­ar­efni verðskulda það að það sé farið í saum­ana á mál­un­um áður en ákv­arðanir eru tekn­ar.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina