Hæstiréttur hefur hafnað beiðni karlmanns, sem dæmdur var í sjö ára fangelsi fyrir gróf brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, um að taka fyrir mál hans fyrir réttinum. Maðurinn fór í málskotsbeiðni sinni til Hæstaréttar ekki fram á að sekt hans yrði tekin til endurskoðunar, heldur taldi hann refsinguna vera of þunga og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.
Hæstiréttur tók þó ekki undir þetta og segir í ákvörðun hans að ekki verði séð að málið lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn réttarins í málinu.
Landsréttur dæmdi manninn í sjö ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa nauðgað þáverandi sambýliskonu sinni, meinað henni útgöngu af heimili hennar, hótað henni lífláti og beitt hana ýmiskonar grófu ofbeldi, svo sem að pota í augu hennar, þrengt að öndunarvegi konunnar, skallað hana, sparkað í hana og kastað þvagi yfir hana.
Þá er hann einnig fundinn sekur um að hafa ítrekað brotið nálgunarbann sem hann sætti vegna ógnandi hegðunar og áreitis í garð konunnar. Maðurinn braust einnig inn til konunnar.
Áður hafði maðurinn fengið sex ára dóm í héraðsdómi, en Landsréttur taldi rétt að þyngja dóminn í sjö ár og að honum yrði gert að greiða konunni fjórar milljónir í miskabætur, eða tvöfalda þá upphæð sem héraðsdómur hafði dæmt konunni.
Sagði í dómi Landsréttar að brot mannsins hefðu verið „sérstaklega ófyrirleitin og atlögur ákærða langvinnar“. Þá er hann ekki sagður eiga sér neinar málsbætur.