Samkvæmisdansarinn Hanna Rún Bazev Óladóttir sagði frá því á Instagram á dögunum að hún væri að glíma við verulegt hárlos. Hanna Rún segir það vera sjokkerandi að upplifa mikinn hármissi enda hefur hún alla tíð verið mjög hárprúð. Allt að helmingur af höfuðhári Hönnu Rúnar fór af en hársekkirnir hafa tekið við sér og því er Hanna Rún bjartsýn á framhaldið.
„Það voru rosalega margir sem tengdu við þetta. Það fylltist allt af skilaboðum hjá mér frá konum sem eru að eiga við hárlos þegar ég póstaði þessari mynd,“ segir Hanna Rún. „Margar mömmur sem eru að díla við hárlos eftir meðgöngu og brjóstagjöf höfðu til dæmis samband við mig,“ útskýrir Hanna og telur þennan hvimleiða vanda vera mun algengari en látið er uppi.
„Það er í rauninni þrennt í þessu hjá mér,“ segir Hanna um mögulegar afleiðingar hárlossins en hún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, eignuðust dóttur í byrjun janúar 2020. „Ég náttúrulega eignast Kíru þarna í byrjun árs en sex mánuðum síðar byrja ég að finna fyrir miklu hárlosi,“ segir Hanna Rún sem varð fyrir miklu óláni í fæðingarferlinu þegar annar fótur hennar lamaðist eftir mistök sem urði við mænurótardeifingu.
„Ég upplifi mikið áfall þegar fóturinn lamaðist og það getur haft áhrif á hársekkina,“ segir hún en á tímapunkti óttaðist Hanna Rún um feril sinn sem atvinnudansari vegna lömunarinnar. „Síðan er ég, ofan í þetta allt saman, líka greind með ofvirkan skjaldkirtil. Þannig það er búið að vera mikið álag á hársekkjunum undanfarið,“ viðurkennir hún og augljóst að vandamálið er ansi fjölþætt.
„Hárið bara hrundi af mér. Mér fannst ég varla geta farið í sturtu. Mér leið eins og ég mætti ekki þvo á mér hárið og strjúka yfir það því þá bara tók ég það allt af. Það bara hélst ekki, féll allt af,“ lýsir Hanna. „Ég var oft með heilu lúkurnar af hári þegar ég var búin í sturtu. Þess mynd sem ég deildi er mynd sem ég átti og hafði einhvern tímann sent á systur mína en hárið sem sést þar er ekki það mesta sem hafði hrunið úr mér.“
Hanna viðurkennir að hárlosið hafi haft áhrif á andlegu hliðina. Hún segir áfallið þó hafa verið minna en þegar fóturinn var í ólagi.
„Á þessum tíma er ég rétt farin að geta labbað aftur. Fóturinn á mér var lamaður í fjóra mánuði en þarna var ég aðeins farin að geta dansað en fóturinn var rosa þungur, bara eins og hundrað kíló. En ef ég hefði ekki lent í því að fóturinn á mér lamaðist þá held ég að hárlosið hafi verið mun erfiðara fyrir mig. Ég var bara að eiga við svo miklu meira og stærra akkúrat þarna. Það tók samt á að missa svona mikið af hári og maðurinn minn sagði einmitt við mig: Guð minn góður, þú átt svona fjórar sturtuferðir eftir og þá verður það allt farið,“ segir Hanna og hlær enda þykir henni mikilvægt að halda í húmorinn líka.
„Ég get alltaf dansað án hárs,“ bendir Hanna réttilega á. „Án hárs getur maður gert allt. Hlaupið um með börnunum og allt en það er erfiðara með fót sem ekki virkar.“
Hanna Rún segist hafa reynt að taka hárlosinu af miklu æðruleysi síðustu misseri. Hún var strax staðráðin í að fara ekki út í neinar öfgar í örvæntingunni.
„Ég byrjaði á því að bera augnskugga í blettina,“ segir hún. „Ég nennti ekki að fara eyða fullt af peningum í gúmmíbangsa, vítamín og alls konar svona dót. Maður veit ekkert hvað af þessu kemur til með að virka og hvað ekki. Ég hugsaði bara að ef allt hárið færi þá myndi ég kaupa mér hárkollur,“ útskýrir Hanna og segist hafa hugsað naumhyggjulega á þessum tímapunkti.
„Mér fannst þetta mjög erfitt og pirrandi þegar ég var að fara eitthvað út og langaði að vera fín. Það er ekki nóg að vera í fínum fötum og fallega máluð og svo með hárið eins og Gollum í Lord of the Rings. Maður upplifir sig ekki almennilega fína í þannig aðstæðum,“ segir Hanna Rún.
Hanna Rún er á batavegi en hársekkirnir hafa verið að taka við sér síðustu mánuði eftir að hafa legið í dvala um nokkurt skeið. Hanna Rún segist hafa tekið ráðleggingum góðrar vinkonu og fallist á að prófa hárdropa frá Kerastasé sem vinkonan mælti með.
„Hún er algjör sérfræðingur í hári og sannfærði mig um að prófa þessa dropa. Ég hef alla tíð átt erfitt með að taka lyf og vítamín og allt þetta, er algjör trassi þegar að því kemur en þessa dropa þarf ég að bera í hársvörðinn tvisvar á dag og ég hef reynt að sinna því eins vel og ég get,“ segir Hanna og er ánægð með árangurinn af Kerastasé dropunum. „Ég var að kaupa mér nýtt glas núna því ég er búin að vera undir miklu álagi núna upp á síðkastið og fann að hárlosið var aðeins farið að gera vart við sig aftur. Vonandi næ ég að koma í veg fyrir það með dropunum,“ segir hún og heldur í vonina um betra framhald.
Hárið er mikill partur af ásýnd og heildarmynd danssýninga en Hanna Rún og eiginmaður hennar hafa verið danspar í heilan áratug og unnið til fjöldamargra verðlauna. Þau eru hvergi nærri hætt að dansa þrátt fyrir erfiðleika og áföll sem dunið hafa á þeim. Hjónin koma tvíefld til baka og halda áfram að takast á við nýjar áskoranir og halda áfram að skrifa afrekssögu sína.
„Við vorum að koma heim úr keppnisferð frá Spáni. Þetta var svona undankeppni fyrir heimsleikana í Latin dönsum,“ segir Hanna Rún. „Þetta er haldið á fjögurra ára fresti í takti við heimsleikana og við erum búin að vera að tryllast úr spenningi síðan við komum heim. Búin að bíða og bíða eftir því að fá að vita hvort við komumst á heimsleikana eða ekki,“ útskýrir Hanna Rún. „En við fengum svar bara núna rétt í þessu og við komumst inn. Það hefur aldrei danspar frá Íslandi keppt á heimsleikunum fyrr,“ segir Hanna og er ótrúlega ánægð.
Heimsleikarnir fara fram í Alabama-fylki í Bandaríkjunum í júlí á þessu ári og þar munu þau Hanna Rún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, gera það sem þau gera best: dansa sig inn í hjörtu dómaranna á heimsleikunum.