Stjörnuhjónin Tom Brady og Gisele Bündchen voru fjarri öllum látum í kringum Ofurskálarleikinn sem leikinn var á sunnudag. Sáust hjónin ganga hönd í hönd á ströndinni í Kosta Ríka fyrr í þeirri viku.
Brady greindi frá því fyrr á þessu ári að hann hefði lagt takkaskóna á hilluna og myndi ekki leika áfram í NFL-deildinni. Hann lék 20 leiktíðir með New England Patriots en síðustu tvær leiktíðir hefur hann spilað með Tampa Bay Buccaneers.
Mikið hefur verið rætt um hvort Brady muni snúa aftur í NFL-deildina en hann sagðist ekki geta svarið fyrir það að hann kæmi ekki aftur. Ein af þeim ástæðum sem hann gaf fyrir endalokum ferils síns var að hann vildi verja meiri tíma með eiginkonu sinni og börnum.
Brady og Bündchen hafa verið gift frá árinu 2009 og eiga saman tvö börn.