Góð loðnuveiði vestan við Eyjar

r Sigurður VE, skip Ísfélagsins, á veiðum undan Suðurlandi fyrir …
r Sigurður VE, skip Ísfélagsins, á veiðum undan Suðurlandi fyrir nokkrum dögum. Skipin voru við Eyjar í gær og afli var yfirleitt góður. Búið er að veiða rúmlega helming kvótans. mbl.is/Börkur Kjartansson

Loðnuskipin sem voru að veiðum í gær voru flest vestan við Eyjar. Góður gangur hefur verið í vertíðinni síðustu daga, en loðnan gengur hratt vestur með suðurströndinni. Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, segir að vonandi verði gott veður, góð veiði og kröftugar loðnugöngur á næstunni svo allt gangi upp og kvótinn náist.

„Menn eru bjartsýnir þegar veðurspáin er góð, en svartsýnni ef spáir illa,“ segir Stefán.

Hann segir að góð loðna hafi veiðst undanfarið, en algengt sé að stærsta loðnan sé í fremstu göngunni. Hrognafylling er nú 15-16% og í vikunni var byrjað að frysta hrygnu fyrir Japansmarkað. Hrognafylling eykst með hverjum deginum og gæti hrognataka byrjað um eða upp úr mánaðamótum í Faxaflóa og Breiðafirði.

Afkastamikill floti

Stefán segir að vertíðin, sem byrjaði í desember, hafi verið erfið veðurfarslega, en flotinn sé afkastamikill og búið sé að veiða yfir helming heildarkvótans upp á 662 þúsund tonn. Þangað til í lok síðustu viku veiddu skipin í troll fyrir norðaustan land, en skiptu þá yfir á nót. Nótaveiðar séu mun háðari góðu veðri og í lægðagangi eins og verið hefur í vetur geti verið erfitt að athafna sig við suðurströndina.

Spurður um markaði segir Stefán að eftirspurn sé eftir loðnuafurðum á mörkuðum. Verð sé almennt viðunandi, en ekki sambærilegt við vertíðina í fyrra þegar kvótinn var miklu minni en núna og kom í kjölfar tveggja ára án loðnuafla.

Stefán Friðriksson.
Stefán Friðriksson.

Mjöl og lýsi fer að stórum hluta til Noregs og Skotlands, þar sem helstu kaupendur eru framleiðendur fóðurs fyrir fiskeldi. Nokkur frysting hefur verið á hæng fyrir markaði í Austur-Evrópu og byrjað er að frysta hrognaloðnu á Japan. Verðmætasta afurðin er síðan loðnuhrognin í lok vertíðar og segir Stefán að eftirspurn sé eftir þeim og reiknað sé með mikilli framleiðslu.

Á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var í fyrradag haft eftir Tómasi Kárasyni, skipstjóra á Beiti NK, að vertíðin hefði gengið vel til þessa, „þetta er þrusuvertíð“. Trollveiðin hafi staðið lengi og verið drjúg. „Útlitið er bara gott að mínu mati varðandi framhald vertíðarinnar. Það er oft sem loðnan fer að þétta sig þegar hún er komin vestur fyrir strenginn en að undanförnu hefur hún verið dálítið tætingsleg,“ sagði Tómas.

Komnir með 60 þúsund tonn

Í gærmorgun mátti sjá norsku skipin halda hvert af öðru úr fjörðum eystra, þar sem þau höfðu haldið sig vegna veðurs. 30 þeirra voru komin á loðnuslóð upp úr hádegi. Annar eins fjöldi beið þess að fá leyfi til að hefja veiðar, en 30 skip mega vera að veiðum á sama tíma.

Síðasti veiðidagur Norðmanna á vertíðinni hér við land er á þriðjudaginn. Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar voru norsku skipin búin að tilkynna um 60 þúsund tonna afla í gær, en þau mega alls veiða 145 þúsund tonn í lögsögunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: