Reglum ekki breytt á miðri loðnuvertíð

Norsk loðnuskip við bryggju í Fáskrúðsfirði. Norsku útgerðirnar segjast munu …
Norsk loðnuskip við bryggju í Fáskrúðsfirði. Norsku útgerðirnar segjast munu eiga erfitt með að veiða þann afla sem þeim hefur verið úthlutað. Ljósmynd/Eðvarð Þór Grétarsson

Íslensk stjórn­völd hafa hafnað mála­leit­an Norðmanna um fram­leng­ingu á þeim tíma sem þeir hafa til loðnu­veiða hér við land. Sömu­leiðis verður þeim ekki heim­ilt að fjölga skip­um, sem hverju sinni eru við loðnu­veiðar við landið.

Kristján Freyr Helga­son, sem fór fyr­ir ís­lensku sendi­nefnd­inni á strand­ríkja­fundi Íslend­inga, Norðmanna og Græn­lend­inga um loðnu­veiðar í sept­em­ber síðastliðnum, seg­ir að Norðmenn hafi á þeim fundi ekki borið upp til­lög­ur um breyt­ing­ar á til­hög­un veiðanna sem eru skil­greind­ar í tví­hliða bók­un þjóðanna.

Síðar hafi fyr­ir­spurn um hugs­an­leg­ar breyt­ing­ar verið bor­in upp bæði á vett­vangi emb­ætt­is­manna og síðan ráðherra. Svar Íslend­inga sé að þess­um skil­yrðum verði ekki breytt á miðri vertíð, en annað mál sé hvort breyt­ing­ar verði rædd­ar á næsta strand­ríkja­fundi.

Nú er kveðið á um að Norðmenn megi hafa 30 skip að veiðum sam­tím­is, veiðitím­inn sé til og með 22. fe­brú­ar, þau megi aðeins veiða í loðnunót og ekki fara suður fyr­ir til­tekna línu sem dreg­in er frá punkti sunn­an Álfta­fjarðar. Þess­ar regl­ur voru rýmkaðar 2015; skip­um fjölgað um fimm og tím­inn lengd­ur um viku.

Kvarta vegna mis­mun­un­ar

Á heimasíðu norsku rík­is­stjórn­ar­inn­ar birt­ist á miðviku­dag frétta­til­kynn­ing þar sem kvartað er yfir mis­mun­un hvað varði regl­ur um loðnu­veiðar. Þar seg­ir að Norðmenn hafi óskað eft­ir breyt­ing­um á þessu og sjáv­ar­út­vegs­ráðherra Nor­egs, Bjørn­ar Skjær­an, hafi átt sam­tal um málið við koll­ega sinn á Íslandi, Svandísi Svavars­dótt­ur. Hann hafi bent á að Íslend­ing­ar sæti ekki mis­mun­un þegar þeir veiði í norskri lög­sögu. Skjær­an seg­ist ekki hafa fengið nein vil­yrði um breyt­ing­ar á þess­ari vertíð, en fjölg­un skipa og lengri tími hefði hjálpað í erfiðri stöðu. Norðmenn eiga eft­ir að veiða um 100 þúsund tonn af heild­arkvóta sín­um upp á 145 þúsund tonn. Til þess að ná þess­um afla hafa þeir ell­efu daga.

Hann seg­ist munu hafa frum­kvæði að því að taka málið upp í tví­hliða viðræðum við Ísland á ár­leg­um fundi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra við Norður-Atlants­haf (NAFMC) í Reykja­vík í maí. „Sem næstu ná­grann­ar eig­um við að geta fundið góðar lausn­ir,“ seg­ir Bjørn­ar Skjær­an í frétt­inni.

Kristján Freyr seg­ir það rétt að Græn­lend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar geti bæði notað troll og nót við loðnu­veiðar við landið. Um það sé kveðið á í samn­ing­um við þær þjóðir, slíku sé ekki til að dreifa gagn­vart Norðmönn­um. Hann seg­ir einnig að ekki eigi að líta á loðnuna sem ein­angrað til­vik held­ur beri að líta á stjórn­un loðnu­veiða sem hluta af sam­tali og sam­skipt­um um deili­stofna í heild.

Aðrir geti veitt án bóta

Fram hef­ur komið að Norðmenn eru komn­ir í tíma­hrak með að ná sín­um afla­heim­ild­um. Aðspurður um hvað verði um kvóta þeirra ná­ist hann ekki seg­ist Kristján líta þannig á að Norðmenn hafi vitað um út­hlut­un­ina frá 1. októ­ber og ekk­ert hafi átt að koma þeim á óvart í þeim efn­um. Aðrir geti því veitt það sem út af standi án bóta fari svo að Norðmenn nái ekki að veiða sín­ar heim­ild­ir. Sömu sögu sé að segja ef kvót­inn verði skert­ur.

Mik­ill ol­íu­kostnaður

Tap gæti orðið á loðnu­veiðum sumra norskra út­gerða við Ísland á þess­ari vertíð, að sögn Fiskeri­bla­det/​Fiskar­en.

Upp­sjáv­ar­skipið Sel­våg Seni­or til­kynnti um 1.335 tonna afla á laug­ar­dag­inn var. Til að ná því þurfti mörg köst í marga daga. Siglt var með afl­ann til Karmsund í bræðslu. Þar feng­ust 2,80 norsk­ar krón­ur (39,42 ÍSK) fyr­ir kílóið.

Egil Sør­heim út­gerðarmaður sagði að allt að 100 tonn af olíu færu í sigl­ing­una fram og til baka milli Karmsund og Íslands. Miðað við að þurfa að borga sex krón­ur norsk­ar (84,49 ÍSK) fyr­ir hvern lítra af olíu og fjór­ar krón­ur (56,33 ÍSK) að auki í gjöld sé nokkuð ljóst að þetta sé ekki ábata­samt.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: