Strákarnir úr raunveruleikaþáttunum Æði njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða á Kúbu um þessar mundir. Húmorinn er aldrei langt undan hjá þeim Bassa Maraj, Binna Glee og Patreki Jamie en í gær sýndu þeir frá því þegar Bassi fór á skeljarnar og bað Binna að trúlofast sér.
„Góðir hlutir gerast hægt. Hann sagði já,“ skrifaði Bassi við mynd af sér að biðja Binna. Síðan setti hann inn mynd af trúlofunarhringnum.
Strákarnir flugu til Kúbu fyrr í vikunni, en um er að ræða leiguflug sem skipulagt var í kringum afmæli Guðjóns Más Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Oz ehf.
Auk strákanna úr Æði eru einnig áhrifavaldarnir Sunneva Eir Einarsdóttir og Jóhanna Helga Jensdóttir í ferðinni, en þær eru líka þekktar á sjónvarpsskjánum en þáttur þeirra #Samstarf var sýndur á Stöð 2 á síðasta ári.
Hópurinn skellti sér í skoðunarferð til höfuðborgar Kúbu, Havana, í gær og naut alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða.