Sá ekki hvað hún leit furðulega út

Courteney Cox breyttist mikið þegar hún var dugleg að kíkja …
Courteney Cox breyttist mikið þegar hún var dugleg að kíkja til lýtalæknis. AFP

Friends-stjarnan Courteney Cox segist ekki hafa áttað sig á hversu mikið hún breyttist þegar hún var dugleg að fara í fegrunaraðgerðir á árum áður. Cox sem verður 58 á árinu opnaði sig um meðferðirnar í viðtali við The Times

Cox reyndi að halda í æskuna með hinum ýmsu aðferðum í nokkur ár. „Ég lít eiginlega bara mjög skringilega út,“ segist Cox ekki hafa hugsað með sér enda áttaði hún sig ekki á hvernig hún leit út. Í dag myndi hún ekki gera það sem hún gerði áður við andlitið á sér. 

Hún fór að sjá sjálfa sig í réttu ljósi þegar hún heyrði hvernig vinir hennar töluðu um hana. „Ég verð að hætta. Þetta er bara klikkun,“ segist Cox hafa hugsað. 

Leikkonan hugsar enn mikið um útlitið þrátt fyrir að hún sé hætt að fara í eins mikið af fegrunaraðgerðum og hún gerði áður. Hún segist finna fyrir mikilli pressu á því að líta vel út. Áhugi hennar hefur farið frá lýtalækningum yfir í vörur. 

Cox segist eiga erfitt með að trúa því að það séu aðeins nokkur ár í sextugt hjá henni. „Ég trúi því ekki. Það er ekkert að því að vera 60, ég trúi því bara ekki. Tíminn líður bara svo hratt,“ segir Cox sem er ung í anda og segist eiga marga vini á fertugsaldri. Hún finnur ekki fyrir aldursmuninum. 

Courteney Cox árið 2007.
Courteney Cox árið 2007. REUTERS
mbl.is