Feðgarnir í brúnni

Oddur Orri og Brynjar Kristmundsson hvor í sínum brúarglugganum þegar …
Oddur Orri og Brynjar Kristmundsson hvor í sínum brúarglugganum þegar þeir komu inn til Ólafsvíkur með vel hlaðinn bát af góðum þorski. Vel veiðist nú við Snæfellsnes og stutt er úr höfn á fengsæla fiskislóð. mbl.is/Alfons

„Núna er hér fínt fiskirí, aflinn í síðustu viku var um 100 tonn og tvöföld sú tala nú í febrúar. Sjómennskan er alltaf skemmtileg, en er algjört ævintýri eins og þessa dagana þegar veiði er góð á miðri vetrarvertíð,“ segir Oddur Orri Brynjarsson, sjómaður í Ólafsvík.

Nú í vetur hefur hann verið afleysingaskipstjóri á Steinunni SH -167 og er fjórði ættliðurinn sem er skipstjóri.

Löng saga í Ólafsvík

Saga þessi hefst á Halldóri Friðgeiri Jónssyni í Ólafsvík sem um 1940 hóf útgerð. Fyrst var Halldór skipstjóri, þá Kristmundur, sonur hans, og svo Brynjar, skipstjóri á Steinunni SH frá því um 1980. Lengi voru sex bræður í áhöfn Brynjars, hann þar meðtalinn. Einn þeirra er nú látinn og þrír komnir í land. Einn bræðranna sex er Ægir, sem enn tekur róðra sem vélstjóri, og eftir góða pásu kom Brynjar aftur inn nú í febrúar og þjálfar Odd Orra sem fór sinn fyrsta túr sem skipstjóri 17. september sl. haust. Átta menn eru í áhöfn bátsins nú og er skyldleiki meðal margra þeirra.

Steinunn SH er 150 brúttótonna bátur, smíðuð í Garðabæ 1971, en hefur síðan verið lengd og yfirbyggð. Bræðurnir Kristmundssynir og þeirra fólk áttu bátinn og útgerð hans allt fram á síðasta ár, þegar FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki keypti 60% hlut í útgerðarfélaginu. Brynjar og Ægir eru áfram eigendur og sækja sjóinn samkvæmt því.

Steinunn er 150 tonna aflabátur, smíðaður fyrir 51 ári og …
Steinunn er 150 tonna aflabátur, smíðaður fyrir 51 ári og oft verið breytt. mbl.is/Alfons

Sjómennskan í blóðinu

„Ég hef alltaf, kannski ómeðvitað að hluta, stefnt að því að taka við skipstjórn af pabba, og þar með afa og langafa. Þetta er í blóðinu. Fyrst fór ég á sjó með pabba fyrir um 25 árum en fyrstu róðra sem skipstjóri tók ég nú í október. Mér finnst fínt að fá pabba inn í þetta með mér núna, svo margt má af honum læra, svo sem hvar er best að vera á hverjum tíma. Núna erum við mikið hér rétt út af Ólafsvík, á fiskislóðum sem heita Fossinn og Keldan,“ segir Oddur Orri og bætir við: „Þegar stutt er á miðin er dagsbirtunni fylgt, farið úr höfn um klukkan átta á morgnana og þegar vel veiðist náum við í land á miðjum degi. Þegar líður lengra fram á vorið förum við fyrr af stað um morguninn og sækjum þá á miðin út af Öndverðarnesi, þangað sem er lengra að sækja. Öll mið hafa sín sérkenni og standa þarf rétt að málum, svo sem þegar snurvoðin er dregin út og sett inn, en í hverjum róðri tökum við oft sex til átta köst.“

Brynjar Kristmundsson segir ánægjulegt að Oddur Orri sé nú að taka við skipstjórn á Steinunni, eins og lengi hafi legið í loftinu. „Áhuginn er mikill og slíkt er mikilvægt. Árangur af störfum verður aldrei mikill ef fólk er að lufsast,“ segir Brynjar, sjómaður frá unglingsárum en nú á leið í land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: