Loðnuafurðirnar streyma jafnt og þétt frá Fáskrúðsfirði til kaupenda út í heimi. Unnið hefur verið að því að koma 2.500 tonnum af mjöli í Wilson Almeria sem mun síðan halda til Þýskalands og er verið að lesta 850 tonnum af frystum hæng í Silver Storm sem mun sigla til Klaipeda í Litháen.
Þetta er meðal þess sem fram kemur á vef Loðnuvinnslunnar.
Þar segir jafnframt að Hoffellið sé á landleið með um 1.600 tonna loðnuafla. Bræla hafði verið áberandi á Breiðafirði og kom Hoffell á miðin er hún var að ganga niður og hófust veiðar klukkan fjögur síðdegis í gær, fékkst því aflinn á inann við sólarhring.
Gert er ráð fyrir að skipið leggi við bryggju á Fáskrúðsfirði annað kvöld og að haldið verði til veiða á ný um leið og löndun lýkur.