Fjögur skip í marsralli Hafró

Árni Friðriksson í marsralli. Leiðangurinn hófst í gær og er …
Árni Friðriksson í marsralli. Leiðangurinn hófst í gær og er markmiðið að kortleggja stofnstærðir botnfiskstofna. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhidlur Egilsdóttir

Fjögur skip taka þátt í stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum sem hófust í gær og standa yfir næstu þrjár vikur. Auk rannsóknaskipanna Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni taka togararnir Breki VE og Gullver NS þátt í þessum árlega leiðangri Hafrannsóknastofnunar sem einnig er þekkt sem marsrallið.

Hægt er að fylgjast með för skipanna í beinni.

Fram kemur í tilkynningu á vef stofnunarinnar að togað verður á tæplega 600 stöðvum á 20 til 500 metra dýpi umhverfis landið. Stofnmælingin hefur verið framkvæmd árlega með sambærilegum hætti frá árinu 1985 og var í upphafi helmingur togstöðva staðsettur af skipstjórum, en öðrum stöðvum var dreift um miðin með tilviljunarkenndum hætti.

„Helsta markmið eru að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldri, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn ýmiskonar rusls á sjávarbotni,“ segir í tilkynningunni.

Í ár er stefnt að því að merkja þorsk úti fyrir Norðurlandi, sem og hlýra. Þá verður einnig erfðasýnum safnað úr þorski og hlýra. Hlé var gert á merkingum á sínum tíma en 2019 hóf Hafrannsóknastofnun aftur merkingar á þorski.

:
mbl.is