Íslenski barinn Nostalgia á Tenerife verður lokaður til 9. mars næstkomandi. Ástæðan er að veirusmit kom upp í nærumhverfi eigenda barsins. Barinn er einn sá vinsælasti á meðal Íslendinga á Tenerife og margur ferðamaðurinn sækir barinn heim árlega.
Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson reka barinn en þau greina frá tíðindunum á Facebook.
„Okkur þykir leitt að tilkynna það, en það kom því miður upp smit í nærumhverfi okkar í gærkvöldi. Við viljum sýna ábyrgð og halda okkur heima næstu daganna. því þurfum við því miður að fresta allri dagskra um viku. Margir okkar gestir eru eldra fólk og oft með undirliggjandi sjúkdóma. Við skulum vona að við náum að mæta eldhress þann 9.mars,“ segir í færslu á Facebook.
Félagslífið á Nostalgiu er blómlegt um þessar mundir en þar er haldið grillkvöld reglulega, fiskihlaðborð, og svo safnast Íslendingar saman á barnum til að horfa á landsleiki og Söngvakeppni Rúv. Þá halda þau Herdís og Sævar í hefðirnar, baka íslenskar pönnukökur og nú síðast héldu þau bolludaginn hátíðlegan með tilheyrandi rjómafroðu og vatnsdeigsbollum.