„Þetta er eðalfiskur“

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, segir veiðina óvenju norðarlega …
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, segir veiðina óvenju norðarlega miðað við árstíma. Ljósmynd/Síldarvinnslan

„Hér er mikið að sjá af hrognaloðnu og góðar lóðningar suður úr öllu, aðeins utar,“ sagði Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, undir hádegi í gær. Þeir voru þá að dæla úr ágætis kasti vestur af Látrabjargi og voru átta loðnuskip á þessum slóðum, en þeim fór fjölgandi. Gæta þurfti að því að fá ekki of mikið í kasti. Veður var orðið skaplegt í gær eftir erfiðan miðvikudag vegna veðurs og sjólags.

Spurður hvort þeir væru ekki óvenju norðarlega miðað við árstíma sagði Tómas svo vera. Hann sagði að menn hefðu velt því fyrir sér hvaðan þessi loðna kæmi, tæpast væri þetta sama ganga og menn hefðu veitt úr á Faxaflóa fyrir nokkrum dögum. Einhverjir hefðu nefnt vestangöngu, en ekkert lægi fyrir um það. Það sem mestu skipti væri að loðnan væri í stórum flekk, nokkuð sem menn hefðu saknað á vertíðinni til þessa.

„Þetta er eðalfiskur með um 22% hrognafyllingu og góður helmingur er að byrja að losa hrognasekkinn,“ sagði Tómas. Að lokinni hrygningu drepst stærstur hluti loðnunnar.

Erfitt að koma nótinni niður

Fleiri sátu að veisluborðinu á loðnumiðunum fyrir vestan í gær því þar var mikill fjöldi hnúfubaka. „Hérna eru hnúfubakar í hundraðatali svo erfitt er að koma nótinni niður og á loðnuslóð í kringum landið skipta þeir þúsundum,“ sagði Tómas. „Það er afleitt að fá kannski 2-3 hvali inn í nótina sem valda miklu tjóni. Þá er ekki annað að gera en að fara með næturnar til viðgerða í landi og til þess er enginn tími þegar kvótinn er svona mikill og veðrið hefur verið eins og í vetur. Á meðan gengur klukkan og hver dagur er dýrmætur.“

Upp úr hádegi voru um 2.200 tonn komin í tanka Beitis og haldið norður fyrir land áleiðis til Norðfjarðar.

Grænlenska loðnuskipið Polar Ammasak út af Látrabjargi síðdegis í gær …
Grænlenska loðnuskipið Polar Ammasak út af Látrabjargi síðdegis í gær en þar var tugur íslenskra, færeyskra og grænlenskra skipa að veiðum. Búið að veiða 425 þúsund tonn á vertíðinni, sem hófst í desember Ljósmynd/Aðsend

Síðustu daga hefur loðna veiðst við Látrabjarg, í Breiðafirði og Faxaflóa, skammt frá Vestmannaeyjum og einnig í grennd við Hornafjörð. Samkvæmt því eru fleiri göngur á leiðinni en þær sem eru komnar vestur fyrir land. Loðnan er á ýmsum stigum í þroska og fer ýmist í hrognavinnslu, frystingu eða bræðslu og ræður afkastageta í landi miklu í þeim efnum.

Samkvæmt yfirliti á vef Fiskistofu er búið að veiða 425 þúsund tonn á vertíðinni, sem hófst í desember. Sú tala er í raun hærri því eitthvað er í skipum í og á leið til löndunar. Miðað við kvóta upp á 662 þúsund tonn er eftir að veiða 237 þúsund tonn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: