„Þetta er eðalfiskur“

Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, segir veiðina óvenju norðarlega …
Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK, segir veiðina óvenju norðarlega miðað við árstíma. Ljósmynd/Síldarvinnslan

„Hér er mikið að sjá af hrognaloðnu og góðar lóðning­ar suður úr öllu, aðeins utar,“ sagði Tóm­as Kára­son, skip­stjóri á Beiti NK, und­ir há­degi í gær. Þeir voru þá að dæla úr ágæt­is kasti vest­ur af Látra­bjargi og voru átta loðnu­skip á þess­um slóðum, en þeim fór fjölg­andi. Gæta þurfti að því að fá ekki of mikið í kasti. Veður var orðið skap­legt í gær eft­ir erfiðan miðviku­dag vegna veðurs og sjó­lags.

Spurður hvort þeir væru ekki óvenju norðarlega miðað við árs­tíma sagði Tóm­as svo vera. Hann sagði að menn hefðu velt því fyr­ir sér hvaðan þessi loðna kæmi, tæp­ast væri þetta sama ganga og menn hefðu veitt úr á Faxa­flóa fyr­ir nokkr­um dög­um. Ein­hverj­ir hefðu nefnt vestang­öngu, en ekk­ert lægi fyr­ir um það. Það sem mestu skipti væri að loðnan væri í stór­um flekk, nokkuð sem menn hefðu saknað á vertíðinni til þessa.

„Þetta er eðal­fisk­ur með um 22% hrogna­fyll­ingu og góður helm­ing­ur er að byrja að losa hrogna­sekk­inn,“ sagði Tóm­as. Að lok­inni hrygn­ingu drepst stærst­ur hluti loðnunn­ar.

Erfitt að koma nót­inni niður

Fleiri sátu að veislu­borðinu á loðnumiðunum fyr­ir vest­an í gær því þar var mik­ill fjöldi hnúfu­baka. „Hérna eru hnúfu­bak­ar í hundraðatali svo erfitt er að koma nót­inni niður og á loðnu­slóð í kring­um landið skipta þeir þúsund­um,“ sagði Tóm­as. „Það er af­leitt að fá kannski 2-3 hvali inn í nót­ina sem valda miklu tjóni. Þá er ekki annað að gera en að fara með næt­urn­ar til viðgerða í landi og til þess er eng­inn tími þegar kvót­inn er svona mik­ill og veðrið hef­ur verið eins og í vet­ur. Á meðan geng­ur klukk­an og hver dag­ur er dýr­mæt­ur.“

Upp úr há­degi voru um 2.200 tonn kom­in í tanka Beit­is og haldið norður fyr­ir land áleiðis til Norðfjarðar.

Grænlenska loðnuskipið Polar Ammasak út af Látrabjargi síðdegis í gær …
Græn­lenska loðnu­skipið Pol­ar Amma­sak út af Látra­bjargi síðdeg­is í gær en þar var tug­ur ís­lenskra, fær­eyskra og græn­lenskra skipa að veiðum. Búið að veiða 425 þúsund tonn á vertíðinni, sem hófst í des­em­ber Ljós­mynd/​Aðsend

Síðustu daga hef­ur loðna veiðst við Látra­bjarg, í Breiðafirði og Faxa­flóa, skammt frá Vest­manna­eyj­um og einnig í grennd við Horna­fjörð. Sam­kvæmt því eru fleiri göng­ur á leiðinni en þær sem eru komn­ar vest­ur fyr­ir land. Loðnan er á ýms­um stig­um í þroska og fer ým­ist í hrogna­vinnslu, fryst­ingu eða bræðslu og ræður af­kasta­geta í landi miklu í þeim efn­um.

Sam­kvæmt yf­ir­liti á vef Fiski­stofu er búið að veiða 425 þúsund tonn á vertíðinni, sem hófst í des­em­ber. Sú tala er í raun hærri því eitt­hvað er í skip­um í og á leið til lönd­un­ar. Miðað við kvóta upp á 662 þúsund tonn er eft­ir að veiða 237 þúsund tonn.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: