Kerfið verður að standast lög

Strandveiðibátar frá Skagaströnd. Mynd úr safni.
Strandveiðibátar frá Skagaströnd. Mynd úr safni. mbl.is/Ólafur Bernódusson

Strand­veiðifé­lag Íslands, fé­lag um rétt­læti í sjáv­ar­út­vegi, var form­lega stofnað í gær á stofn­fundi fé­lags­ins. Gunn­ar Ingi­berg Guðmunds­son, ný­kjör­inn formaður fé­lags­ins, seg­ir í sam­tali við mbl.is að fund­ur­inn hafi verið vel sótt­ur og aðsókn­in hafi verið framúr björt­ustu von­um.

Gunn­ar nefn­ir þó að brös­ug­lega hafi gengið að koma upp fjar­funda­búnaði fyr­ir fund­inn sem varð til þess að þeir sex­tíu fé­lags­menn sem fylgd­ust með fund­in­um í gegn­um beint streymi gátu ekki kosið.

„Það verður leiðrétt með aukaaðal­fundi. Ætli það verði ekki boðaður stjórn­ar­fund­ur á morg­un og ætli aðal­fund­ur­inn verði ekki hald­inn inn­an fjög­urra vikna í það minnsta,“ seg­ir Gunn­ar.

Vilja laga strand­veiðikerfið

Aðspurður seg­ir Gunn­ar mark­mið fé­lags­ins að fá strand­veiðikerfið lagað.

„Það er í raun­inni um það að kerfið stand­ist þá lög og upp­fylli þetta álit. Við ætl­um að sækja það, það er meg­in­til­gang­ur­inn,“ seg­ir Gunn­ar og vís­ar í álit mann­rétt­inda­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna frá októ­ber 2007 þar sem fram kem­ur að ís­lensku lög­in um stjórn fisk­veiða brjóti í bága við 26. gr. alþjóðasamn­ings um borg­ara­leg og stjórn­mála­leg rétt­indi um jafn­rétti allra manna. Þetta kom einnig fram í til­kynn­ingu fé­lags­ins í gær.

Gunn­ar seg­ir að Face­book-hóp­ur fé­lags­ins hafi verið stofnaður fyr­ir nokkr­um árum en form­legt fé­lag ekki sett á lagg­irn­ar fyrr en nú þar sem á þeim tíma höfðu þau trú á því að Lands­sam­band smá­báta­eig­enda myndi berj­ast frek­ar fyr­ir strand­veiðum.

„Það er alltaf þannig að það er aldrei hægt að ræða strand­veiðar nema tíu mín­út­um áður en strand­veiðar byrja og eins og ég segi það er ekki póli­tísk­ur vilji og held ég að það sé hægt að þvinga hann fram með áliti frá er­lend­um stofn­un­um.“

mbl.is