Loðnuveiðar Norðmanna í Barentshafi eru fyrir nokkru hafnar og virðist mikið af loðnu vera á ferðinni fyrir norðan Noreg. Í Fiskaren er haft eftir Kristian Sandtorv, formanni í samtökum norskra uppsjávarútgerða (Pelagisk Forening), að lítill kvóti sé hneyksli og fiskifræðingar verði að leggja fram trúverðugar skýringar á ráðgjöfinni.
Sandtorv bendir á að Íslendingar hafi í upphafskvóta heimilað veiðar á yfir alls 900 þúsund tonnum á vertíðinni, meira en 20 sinnum það sem Noregur heimili.
Hann segir að Íslendingar vakti loðnustofninn sumar og vetur og mun betur en Norðmenn geri. Íslendingar fylgist sérstaklega með göngum hrygningaloðnunnar og endanleg kvótaráðgjöf komi eftir að vertíð sé hafin og styttist í hrygningu. Þetta sé nokkuð sem Norðmenn geti lært af, en í staðinn sé lokaráðgjöf byggð á rannsóknum síðsumars í fyrra. Nú er í gangi leiðangur til að mæla hrygningarstofninn í Barentshafi, en niðurstöður munu ekki hafa áhrif á kvótann í ár.
Loðnuveiðar voru bannaðar í Barentshafi 2019-2021, en í ár er heildarkvótinn 70 þús. tonn, 27.800 tonn koma í hlut Rússa og 42 þúsund tonn í hlut Norðmanna. Í vikubyrjun voru norsku skipin búin að veiða um 10 þús. tonn. Sjö rússnesk skip hafa leyfi til veiða og voru um mánaðamótin búin að veiða um 9.300 tonn.
Stjórnvöld í Noregi hafa gripið til ýmissa aðgerða gagnvart Rússum vegna stríðsins í Úkraínu. Það á þó ekki við um samstarf á sviði sjávarútvegs og fiskveiða. Fiskaren hefur eftir fulltrúa rússneskra fiskveiðiyfirvalda að vilji væri til þess að halda áfram samstarfi Rússlands við Noreg á þeim vettvangi. Um væri að ræða einstakt samstarf í 50 ár. Haft var eftir norskum sérfræðingi að báðir aðilar hefðu mikla hagsmuni af samstarfinu.