Yngstu börnum fjölgar á biðlistum

Kort/mbl.is

Alls hafa 33 sveitarfélög landsins sett sér stefnu eða viðmið um að innrita börn á leikskóla við 12 mánaða aldur eða yngri. Í þessum sveitarfélögum býr þriðjungur landsmanna. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar um mönnunarviðmið og innritunaraldur í leikskólum sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi í janúar á öll sveitarfélög sem reka leikskóla.

Fram kemur að fjögur sveitarélög setja sér það viðmið að innritunaraldur sé um 18 mánaða. Í þeim býr tæplega helmingur landsmanna og munar þar talsverðu um að Reykjavíkurborg er í þeim hópi, að því er fram kemur í umfjöllun.

Í könnuninni var einnig spurt um fjölda barna eftir aldri þeirra sem voru á biðlista 1. nóvember sl. Alls svöruðu 27 sveitarfélög þessari spurningu en þar búa um 87% landsmanna. Ekki kemur fram hversu mörg börn voru á biðlistum en í ljós kemur að aldurssamsetning barna á biðlistum hefur breyst töluvert frá könnun sem gerð var á árinu 2018. Haustið 2018 var t.d. ríflega þriðjungur barna á biðlista yngri en tólf mánaða en þremur árum síðar hefur yngstu börnunum á biðlistum fjölgað mikið hlutfallslega og voru börn yngri en tólf mánaða orðin tæplega 60% af öllum þeim börnum sem voru á biðlista eftir leikskólaplássi í sveitarfélögunum í nóvember sl. Bent er á í könnuninni að ein skýring á þessari fjölgun sé sú að aukinn þrýstingur sé nú á að börn komist fyrr inn á leikskóla en áður var.

Af könnuninni má einnig ráða að nokkrar breytingar hafa átt sér stað á seinasta ári á aldri barna við innritun í leikskóla samanborið við stöðuna á árinu 2018. Dreifingin eftir aldri barna sýnir m.a. að lægra hlutfall barna sem eru 31 mánaðar eða eldri innrituðust í leikskóla í fyrra en fyrir þremur árum. Flest eru börnin á aldursbilinu 19-24 mánaða þegar þau eru innrituð í leikskóla eða ríflega þriðjungur allra barnanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: