Hernaðarsérfræðingar og vestrænar leyniþjónustur halda áfram að fylgjast grannt með aðferðum þeim sem rússneskt innrásarlið beitir í Úkraínu. Og þessar aðferðir þykja margar benda til að stór hluti heraflans búi yfir afar takmarkaðri þjálfun og reynslu af vopnuðum átökum. Kann það að skýra hvers vegna tveir rússneskir hershöfðingjar og enn fleiri háttsettir yfirmenn hersins hafa þegar fallið í Úkraínustríðinu. Þeir hafi hugsanlega verið sendir í fremstu víglínu því átakanlegur skortur virðist vera á reynslu þar og leiðsögn.
Birti hér þrjár stillur úr myndbandi sem tekið var úr dróna á vegum Úkraínuhers, dróni sem hugsanlega nýttist þeim við þá árás sem nú verður farið yfir.
Fyrsta stilla sýnir upphaf árásar, klassískt launsátur. Á henni má sjá hvar rússneskir bryndrekar, eru alls einhverjir tugir talsins en sjáist ekki allir, ferðast í beinni línu eftir malbikuðum þjóðvegi. Rússarnir velja þjóðveginn að líkindum vegna þess að þá komast þeir hraðar yfir og eiga ekki á hættu að festa tæki sín í blautum jarðveginum. Á veginum eru þeir hins vegar berskjaldaðri fyrir árás, hafa minna bil á milli sín og ekki sama svigrúm til að bregðast við hinu óvænta.
Úkraínumönnum tókst ekki að hæfa fyrsta bryndreka fylkingarinnar, reyndu það ekki. Hann var kominn fram hjá bryndrekabananum sem beið þeirra. Baninn er vinstra megin á stillunni, bak við tré og því í góðu skjóli. Hugsanlega höfðu Úkraínumenn ekki tíma til að skjóta fyrsta bryndrekann, það hefði þó verið ákjósanlegast til að mynda fyrirstöðu og tefja þannig alla röðina.
Í aðstæðum sem þessum á þjálfun hermanna að taka við. Þeir eiga í raun ekki að þurfa að hugsa, heldur tekur eins konar vöðvaminni yfir. Að því sögðu þurfa þeir auðvitað alltaf að lesa í aðstæður, en þjálfunin er grunnurinn. Sé litið í eina af þeim kennslubókum sem Bandaríkjaher notast við og fjallar um viðbrögð við launsátri má í stuttu máli segja eftirfarandi; Leiðin út úr launsátri er að svara árásinni. Byrjaðu á því að samhæfa hópinn, finndu svo veikleika hjá óvininum og settu því næst allan þinn þunga þangað. Sem sagt, lendi hermenn í launsátri þá eiga þeir að berjast út úr þeim aðstæðum.
Á stillum tvö og þrjú má sjá viðbrögð rússneska landhersins við launsátrinu. Þeir bryndrekar sem fyrst bregðast við tvístrast og fara í sitt hvora áttina. Ofan á þessum drekum sat fótgöngulið, ekki óalgengt að þeir fái far á löngum ferðum, og hoppa þeir strax af þegar árásin hefst. Þeir hlaupa svo nær allir frá óvininum og í átt að akrinum hægra megin á stillunni. Það svæði er að öllum líkindum nokkuð neðar en sá staður sem Úkraínumenn eru á og því munu þessir hermenn ekki koma að miklu gagni.
Fremsti bryndrekinn, sá sem ákjósanlegast hefði verið að sprengja upp fyrst, heldur áfram að keyra í burtu og svarar árásinni því á engan hátt. Næstu þrír á eftir þeim sem var sprengdur upp forða sér í átt að akrinum. Á leið sinni þangað snúa þeir rassinum í átt að óvininum, en það er einmitt einn viðkvæmasti staður bryndrekans. Það er í raun ekki fyrr en komið er að þeim sjötta og sjöunda sem Rússar bregðast við af einhverju skipulagi. Þau tæki snúa sér samtímis í átt að óvininum og beina þannig þangað bæði aðalvopni sínu og sterkasta hluta brynvarnarinnar. Sjötti bryndreki er jafnframt sá fyrsti, að því er virðist, til að svara árásinni og gerir það með aðalvopni sínu.
Víkjum aftur að kennslubók Bandaríkjahers hvar áhersla er lögð á að samhæfa hópinn, finna veikleika hjá óvininum og beina allri sinni árás þangað. Það fer ekki mikið fyrir því.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.