Lína Birgitta sýndi styrk þegar pabbi hennar sat inni

Lína Birgitta Sigurðardóttir opnar sig í nýjasta hlaðvarpsþættinum Spjallinu.
Lína Birgitta Sigurðardóttir opnar sig í nýjasta hlaðvarpsþættinum Spjallinu. Ljósmynd/Aðsend

Lína Birgitta Sigurðardóttir áhrifavaldur heldur úti hlaðvarpsþættinum Spjallinu ásamt Sólrúnu Diego og Gurrý Jónsdóttur. Í nýjasta þættinum segir Lína Birgitta frá því þegar hún komst að því að faðir hennar væri í fangelsi.

„Ég man þegar ég var í grunnskóla, pabbi minn sem sagt sat inni, var í fangelsi. Ég komst einhvern veginn að því og svo tveimur dögum seinna var hann á forsíðu DV þegar ég var að fara í 10-11 að kaupa mér mat. Þá sá ég bara pabba þarna, og í alvörunni ég get ekki sett það í orð hvernig mér leið sko. Þetta var mjög mikið högg á þessum tíma og það frétti allur skólinn þetta,“ segir Lína Birgitta. Hún játar að það hafi verið áfall en það hafi ekki verið síður áfall að allir í skólanum vissu þetta. Hún tók ákvörðun um að brynja sig fyrir þessu og láta eins og ekkert hafi í skorist. 

„Ég náttúrulega tók ákvörðun þarna að ég ætlaði að vera hörð og setja brynju á mig. Ég tók meðvitaða ákvörðun og ef fólk var að spyrja þá svaraði ég eins og mér væri sama. Ég var bara eitthvað: „Já, ókei hehe“ en var svo grenjandi heima hjá mér alla daga. Ég fór í skólann, kom svo heim alveg búin á því,“ segir hún og segir frá því að stuttu síðar hafi hún verið í tíma og þá hafi þau verið að rífast. Þá hafi þessi bekkjarbróðir hennar sagt við hana að pabbi hans væri allavega ekki í fangelsi eins og pabbi hennar. Lína Birgitta segir að þetta hafi haft mjög særandi áhrif á hana en hún hafi tekið þetta á kassann.

Faðir Línu Birgittu er Sigurður Rúnar Gunnarsson og var hann var handtekinn 2004 fyrir fíkniefnasmygl. Á mbl.is kemur fram að hann hafi fengið þriggja og hálfs árs dóm fyrir brotið. 

mbl.is