„Almennt segjum við allt gott hér á Fáskrúðsfirði, það þýðir ekkert annað,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. „Við vitum ekki frekar en aðrir hvað þessi vertíð stendur lengi og ég held það sé ekki almennilegt veiðiveður í kortunum fyrr en á laugardag, sunnudag.“
„Þá er spurning hvort loðnan verður búin að hrygna og hvaða áhrif brælan hefur haft. Ég held að það sem var út af Snæfellsnesi um síðustu helgi geti þó verið óhrygnt,“ segir Friðrik.
Um 170 starfsmenn vinna allt árið hjá Loðnuvinnslunni, sem er um 40% af vinnandi fólki í bænum. Fyrirtækið er langstærsti vinnuveitandinn á Fáskrúðsfirði. Allmargt fólk af erlendum uppruna starfar hjá fyrirtækinu.
„Margt af þessu fólki hefur verið hjá okkur í 15-20 ár og það er spurning hversu lengi við tölum um útlendinga í þessu sambandi. Staðreyndin er sú að þetta fólk kann vel til verka og er okkur lífsnauðsynlegt,“ segir Friðrik.