Sér eftir að hafa breytt nefinu 14 ára

Bella Hadid lét breyta á sér nefninu þegar hún var …
Bella Hadid lét breyta á sér nefninu þegar hún var unglingur. JULIEN DE ROSA / AFP

Ofurfyrirsætan Bella Hadid var aðeins 14 ára þegar hún fór í lýtaaðgerð og lét breyta nefinu sínu. Hún sér eftir ákvörðuninni en segist ekki hafa farið í aðrar fegrunaraðgerðir. Hadid glímir enn við mikinn kvíða var lengi vel í skugga stóru systur sinnar, fyrirsætunnar Gigi Hadid, og trúði því að hún væri ljótari en stóra systir. 

„Ég vildi að ég hefði haldið nefi forfeðra minna,“ segir Hadid í viðtali við Vogue. Hadid telur að nefið hefði líklega passað henni betur seinna enda ekki nema 14 ára þegar hún lét breyta því. 

Bara farið í nefaðgerðina

Hadid hefur ávallt neitað því að hafa farið í fegrunaraðgerðir og segist ekki hafa farið í aðrar aðgerðir. Hún hefur meðal annars verið sökuð um að hafa farið til lýtalæknis með mynd af Cörlu Bruni meðferðis en fyrirsætan og franska stjarnan hafa oft verið bornar saman.

Fyrirsætan hefur líka verið sökuð um að láta lyfta augunum, látið laga kjálkalínuna og farið í varafyllingu. „Fólk heldur að ég hafi breytt öllu andlitinu mínu út af einni mynd af mér frá því ég var unglingur þar sem ég var þrútin. Ég er viss um að þú lítur ekki eins út og þú varst 13, ekki satt? Ég hef aldrei fengið mér fyllingar. Svo við getum hætt að tala um það. Ég er ekki á móti því en það er ekki fyrir mig. Sá sem heldur að ég hafi látið lyfta augunum eða hvað sem það er kallað þá er það kallað andlitslím! Það er elsta trixið í bókinni. Ég hef glímt við það að fólk hefur ekki fundist ég eiga skilið neitt af þessu.“

Hadid er óánægð hvernig fólk kemur fram við hana og hvernig það talar um hana. „Ég hef alltaf verið misskilin í bransanum og af fólkinu í kringum mig,“ segir Hadid og er óhrædd við að láta fólk heyra það. 

Bella Hadid á tískusýningu fendi í febrúar.
Bella Hadid á tískusýningu fendi í febrúar. Miguel MEDINA / AFP

Trúði því að hún væri sú ljóta

„Ég var ljótari systirin. Ég var dökkhærð. Ég var ekki eins svöl og Gigi, ekki eins vinsæl,“ segir Hadid. „Það var það sem fólk sagði um mig. Og því miður þegar þér er sagt eitthvað nógu oft trúir þú því bara.“

Hadid glímir við marga andlega kvilla og er smátt og smátt byrjuð að opna sig um það. Hún segist vera mjög óörugg og er enn mjög kvíðin og glímir við þunglyndi. Hún segist vera með ranghugmyndir um líkama sinn, hafa átt vandamál með að borða, hatar að vera snert og glímir við félagskvíða. Hún segist hafa spurt sig að því hvernig stelpa eins og hún, sem glímir við allt þetta, hafi náð eins langt sem fyrirsæta. „En í gegnum árin varð ég mjög góð leikkona. Ég brosti breitt eða setti upp andlit. Mér leið alltaf eins og ég þyrfti að sanna eitthvað. Fólk getur talað um hvernig ég lít út, hvernig ég tala, hvernig ég læt. En í sjö ár hef ég ekki misst af starfi, hætt við starf eða verið sein í starf. Enginn getur sagt að ég vinni ekki mikið.“

Reyndar hefur Hadid unnið svo mikið að í fyrra fann hún fyrir kulnun. Hún segist hafa þurft að taka sér tíma og vinna í sjálfri sér. 

Bella Hadid í fötum Moschino á tískuvikunni í Mílanó February …
Bella Hadid í fötum Moschino á tískuvikunni í Mílanó February 24, 2022. MIGUEL MEDINA / AFP
mbl.is