Beðnir um að sleppa grásleppu

Grásleppa sem fæst í net sem meðafli en sjómönnum er …
Grásleppa sem fæst í net sem meðafli en sjómönnum er skyllt að sleppa fiskinum sé hann lifandi þegar netin eru dregin. mbl.is/RAX

Grásleppuvertíðin hefst ekki fyrr en á sunnudag en þegar hefur verið landað 64 tonnum af grásleppu það sem af er fiskveiðiárinu. Í tilefni af þessum mikla grásleppuafla, sérstakelga hjá netabátum, telur Fiskistofa ástæðu til að árétta skipum sem stunda netaveiðar sé skylt að „sleppa allri grásleppu sem er lifandi í netum þegar þau eru dregin“, að því er segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.

Minnir Fiskistofa á að grásleppuveiðar geti aðeins farið fram með sérstöku leyfi Fiskistofu. Opnað var fyrir umsóknir um grásleppuleyfi í byrjun vikunnar.

Tegundin er algengur meðafli annarra veiða og hefur Bárður SH-81 landað mest allra eða 5,5 tonnum og fylgir Björg EA-7 þétt á eftir með 5,2 tonn. Geir ÞH-150 hefur landað 3,1 tonni, Vesnus NS-150 3 tonnum og Jón Kjartansson SU-111 2,8 tonnum.

Alls hafa 72 bátar og skip landað grásleppu á fiskveiðiárinu.

mbl.is