Ríkar ástæður svo Fiskistofa fái lögregluvald

Persónuvernd telur Fiskistofu þurfa að fá auknar heimildir í lögum …
Persónuvernd telur Fiskistofu þurfa að fá auknar heimildir í lögum ef sinna á eftirliti með leynd. mbl.is/Alfons Finnsson

Að mati Pet­sónu­vernd­ar er ekki æski­legt að stofn­un sem fer ekki með lög­reglu­vald sé veitt heim­ild til vökt­un­ar með leynd, sam­bæri­leg þeim heim­ild­um sem lög­regla beit­ir í þágu rann­sókn­ar saka­mála. Þetta er meðal þess sem fram kem­ur í um­sögn Per­sónu­vernd­ar um frum­varp til laga um breyt­ingu á ýms­um lög­um á sviði fisk­veiðistjórn­un­ar þar sem meðal ann­ars er fjallað um eft­ir­lit Fiski­stofu.

Meðal þess sem lagt er til í frum­varp­inu er að Fiski­stofu verði veitt heim­ild til að not­ast við fjar­stýrð loft­för, eða dróna, í þágu eft­ir­lits með fisk­veiðum og einnig að henni verði veitt heim­ild til aðgangs að efni sem safn­ast í ra­f­ræn­um vökt­un­ar­kerf­um í lönd­un­ar­höfn­um, að því er seg­ir í um­sögn­inni.

Styrkja heim­ild­ir

Með frum­varp­inu eru lagðar til breyt­ing­ar til að styrkja heim­ild­ir Fiski­stofu til ra­f­ræns eft­ir­lits og vökt­un­ar. Í frum­varpi um breyt­ingu á lög­um um Fiski­stofu seg­ir meðal ann­ars: „Eft­ir­lits­mönn­um Fiski­stofu er heim­ilt að nota fjar­stýrð loft­för í eft­ir­lits­störf­um sín­um sem eru búin mynda­vél­um til upp­töku eða ann­an fjar­stýrðan búnað sem get­ur safnað upp­lýs­ing­um. Fiski­stofu er heim­ilt að vinna upp­lýs­ing­ar sem þannig er aflað í eft­ir­lit­stil­gangi eða til söfn­un­ar, úr­vinnslu og út­gáfu upp­lýs­inga á sviði sjáv­ar­út­vegs­mála í sam­ræmi við hlut­verk stofn­un­ar­inn­ar.

Skal gæta þess að ein­ung­is sé ra­f­ræn vökt­un á þeim stöðum sem nauðsyn­legt er talið vegna al­manna­hags­muna og til þess að eft­ir­lits­menn Fiski­stofu geti upp­fyllt eft­ir­lits­skyldu sína.“

Fiskistofa býr yfir öflugum drónum sem þegar hafa verið notaðir …
Fiski­stofa býr yfir öfl­ug­um drón­um sem þegar hafa verið notaðir við eft­ir­lit með veiðum. Lands­sam­band smá­báta­eig­enda hef­ur kallað drón­ann op­in­bert eft­ir­litsauga Fiski­stofu. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Mat verði gert á nauðsyn vökt­un­ar og eft­ir­lits

Í um­sögn Per­sónu­vernd­ar er sér­stak­lega fjallað um eft­ir­lit með drón­um und­ir fyr­ir­sögn­inn Vökt­un með leynd. Þar kem­ur fram það mat Per­sónu­vernd­ar að rík­ar ástæður verði að vera fyr­ir því að veita Fiski­stofu lög­reglu­vald. Standi vilji lög­gjaf­ans til að heim­ila Fiski­stofu að viðhafa ra­f­ræna vökt­un með leynd þá er það skoðun Per­sónu­vernd­ar að nauðsyn­legt sé að fram­kvæmt sé mat á nauðsyn vökt­un­ar­inn­ar með hliðsjón af kröf­um stjórn­ar­skrár og að niður­stöður þess mats séu skráðar í lög­skýr­ing­ar­gögn.

Frum­varpið var lagt fram með breyttu sniði á síðasta þingi en hlaut ekki af­greiðslu. Per­sónu­vernd veitti um­sögn um það frum­varp í maí í fyrra, en ekki hef­ur verið orðið við at­huga­semd­um stofn­un­ar­inn­ar nema að mjög tak­mörkuðu leyti, að því er seg­ir í nýrri um­sögn þar sem fyrri at­huga­semd­ir Per­sónu­vernd­ar eru ít­rekaðar.

Í frum­varp­inu er gert ráð fyr­ir heim­ild eft­ir­lits­manna Fiski­stofu til aðgangs að ra­f­ræn­um vökt­un­ar­kerf­um í lönd­un­ar­höfn­um, eft­ir­lits­mynda­vél­um, í þeim til­gangi að hafa eft­ir­lit með lönd­un afla. Það er afstaða Per­sónu­vernd­ar að nauðsyn­legt sé að fram­kvæma mat á nauðsyn um­rædds eft­ir­lits með hliðsjón af kröf­um stjórn­ar­skrár.

Upp­taka ef grun­ur um brot

Fiski­stofa notaði dróna í aukn­um mæli við fisk­veiðieft­ir­lit á síðasta ári. Stofn­un­in tel­ur sig hafa heim­ild­ir fyr­ir slíku og ekki hafa verið gerðar at­huga­semd­ir við þessa aðferð við eft­ir­lit af hálfu op­in­berra aðila, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Fiski­stofu.

Með drón­un­um geta eft­ir­lits­menn fylgst með störf­um sjó­manna úti á sjó á skjá sín­um. Þegar grun­ur hef­ur verið um brot gegn fisk­veiðilög­gjöf­inni hafa eft­ir­lits­menn getað gripið til upp­töku á mynda­vél­um drón­ans. Með þau gögn hef­ur verið farið sam­kvæmt per­sónu­vernd­ar­lög­um.

Á síðasta almanaks­ári voru 142 brott­kasts­mál skráð hjá Fiski­stofu og var um mikla aukn­ingu að ræða frá ár­un­um á und­an, en þá voru þau gjarn­an um 10 á ári. Öll mál­in í fyrra greind­ust með notk­un dróna og voru flest þeirra af­greidd með leiðbein­inga­bréfi. Fiski­stofa hef­ur boðað að til harðari viðbragða verði gripið á þessu fisk­veiðiári.

Í fe­brú­ar í fyrra birt­ist eft­ir­far­andi frétt á heimasíðu Fiski­stofu: Mikið hef­ur verið fjallað um eft­ir­lit Fiski­stofu með drón­um í fjöl­miðlum. Um­fjöll­un­in hef­ur m.a. lotið að því að notk­un dróna við eft­ir­lit sé ólög­mæt og brjóti á friðhelgi einka­lífs þeirra sem eft­ir­lit bein­ist að. Fiski­stofu er með lög­um falið að fylgj­ast með fram­kvæmd laga um stjórn fisk­veiða og að hafa eft­ir­lit með fisk­veiðum. Með hliðsjón af því var það mat Per­sónu­vernd­ar að vinnsla Fiski­stofu á upp­lýs­ing­um um refsi­verðan verknað á þann hátt sem lýst var í er­indi Fiski­stofu til Per­sónu­vernd­ar geti fallið und­ir lög­bundið hlut­verk stofn­un­ar­inn­ar.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: