Edda Hermannsdóttir markaðsstjóri Íslandsbanka hefur oft talað um að hún sé fædd miðaldra. Myndirnar frá fermingardegi hennar sanna það. Hún fermdist árið 2000 þegar stúlkur voru með slöngulokka í hárinu, en slíkt var ekki fyrir stúlkuna Eddu sem vildi vera aðeins klassískari í útliti á þessum merkilega degi.
„Ég á mjög skemmtilegar minningar um fermingardaginn minn en ég fermdist í Akureyrarkirkju árið 2000. Veislan var haldin í Sveinbjarnargerði sem er fallegur staður fyrir utan Akureyri. Minnisstæðast er þó líklega að ég ákvað að klippa síða þykka hárið rétt fyrir fermingu því ég vildi ekki vera eins og hinar stelpurnar. Ég var líka mjög upptekin af því að sleppa lifandi frá slöngulokkunum. Núna er ég að undirbúa fermingu dóttur minnar og hef gaman af því hversu miklar skoðanir ungt fólk hefur á þessum viðburði og vill gera þetta alveg eftir sínu höfði sem er frábært,“ segir Edda.