Loðnuskipin voru flest að veiðum vestan og síðan sunnan við Reykjanes í gær, en afli mun ekki hafa verið mikill. Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu er búið að landa hátt í 506 þúsund tonnum á vertíðinni sem byrjaði í desember. Þá eru tæp 180 þúsund tonn eftir af 685 þúsund tonna kvóta.
Síðan brælunni slotaði er leið á föstudag hafa skipin leitað víða; norður með Vestfjörðum, á Breiðafirði og í Faxaflóa. Þá svipuðust skip á leið að austan eftir loðnu fyrir Norðurlandi og suður með Vestfjörðum, en án árangurs.
Það var síðan á sunnudag að fréttist af loðnu við Reykjanesið. Þar var þokkalegt veður í gær og vonuðust menn eftir að loðnan á þeim slóðum þétti sig og yrði veiðanlegri. Loðnan var yfirleitt komin að hrygningu, en það var þó eitthvað breytilegt.