Leikkonan Rachel Zegler hefur fengið boð á óskarsverðlaunahátíðina sem fer fram 27. mars næstkomandi. Mun hún tilkynna verðlaun á hátíðinni. The Hollywood Reporter greinir frá þessu.
Zegler, sem fer með hlutverk í kvikmyndinni West Side Story, greindi frá því á sunnudag á instagram að hún hefði ekki fengið boð á Óskarsverðlaunin, þrátt fyrir að kvikmyndin væri tilnefnd í sjö flokkum.
Aðdáendur leikkonunnar stóðu þétt við bakið á henni og rifust og skömmuðust yfir því að hún hefði ekki fengið boð. Zegler var ekki tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sjálf, en hún hlaut í janúar Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í myndinni.
Zegler er um þessar mundir stödd í Lundúnum við tökur á endurgerð á teiknimyndinni Mjallhvíti, en mun fá leyfi til að skella sér vestur til Los Angeles í Bandaríkjunum til að vera viðstödd Óskarsverðlaunin.
Hver sá sem er tilnefndur fær sjálfkrafa miða á hátíðina. Þá fá einnig kvikmyndaverin ákveðinn fjölda miða og ráða hvernig þau ráðstafa þeim.